Græn skref í Framhaldsskólanum á Laugum

Þann 22. nóvember síðastliðinn lauk Framhaldsskólinn á Laugum skrefi þrjú af þeim fimm sem eru hugsuð til að efla umhverfisvitund starfsmanna og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum stofnunarinnar.

Verkefnið snýst um að fylgja gátlistum sem eru skipt upp í fimm skref með um tuttugu mismunandi aðgerðum sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur. Aðgerðunum er skipt upp í sjö flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri eins og til dæmis: flokkun, minni sóun, húshitun og rafmagn svo eitthvað sé nefnt.

Þar sem Framhaldsskólinn á Laugum er heimavistarskóli í sveit hefur það verið nokkur áskorun að aðlaga suma þætti verkefnis þannig að það uppfylli þær kröfur sem eru settar. Markmiðið er að aðgerðirnar sem við förum í nái til nemenda, heimavistar og starfsmanna. Á Laugum eru margar áralangar hefðir nemenda sem passa vel inn í verkefnið eins og til dæmis gróðursetning nýstúdenta svo eitthvað sé nefnt.

Fram undan er vinna við skref fjögur og vonumst við til að ljúka því á vorönninni. Við hlökkum til að halda áfram að finna lausnir og taka þátt í efla umhverfissjónarmið starfsmanna okkar og nemenda. 

Kaffihlaðborð í tilefni af þvi að FL hefur lokið skerfi þrjú í Grænum skrefum. Smelltu á myndirnar til þess að sjá þær stærri.

Deila