Vikulegar fréttir nemanda Framhaldsskólans á Laugum

Nemendur í fjölmiðlafræði fá það skemmtilega verkefni í vetur að fjalla um lífð í skólanum og eru það nemendurnir Edda og Elísabet sem hefja leikinn.

Brunnur fyrstu viku Laugaskóla 

Framhaldsskólinn á Laugum var settur sunnudaginn 27. ágúst. Skólasetning var klukkan 18:00 þann dag, en vistin opnaði klukkan 13:00 fyrir þá nemendur sem eru á vist. Skólinn byrjaði síðan klukkan 09:15 mánudaginn 28. ágúst og byrjaði Brunnur þá. 

Dagskrá Brunnsins 

Mánudagur 

Dagurinn byrjaði á því að allir nemendur mættu í Þróttó á skólafund, síðan fóru allir í leiðsagnartíma hjá sínum leiðsagnarkennara. Frímínútur voru eftir það en síðan byrjaði námstækni, grenndarkynning og námsráðgjöf hjá nýnemum, á meðan voru eldri nemar að skipuleggja móttöku fyrir nýnema. Síðan var hádegismatur og eftir hann fóru allir nemendur út á íþróttavöll í leiki. 

Þriðjudagur  

Annar dagur Brunnsins byrjaði á fyrirlestri hjá Kvan í Þróttó. Eftir það voru frímínútur og síðan voru áfangakynningar og vinnustofur að hádegismat. Eftir hádegi fóru allir nemendur í rútur til Mývatnssveitar til að ganga upp á/í kringum Hverfjall og að Dimmuborgum. Þar var síðan farið aftur í rútur og að Jarðböðunum þar sem nemendum og kennurum bauðst að baða sig. Síðan fóru allir í rútur og beint í mat á Laugum. 

Miðvikudagur   

Þriðji dagur Brunnsins fór ekki alveg eins og var planað. Dagurinn átti að byrja á morgunmat og stuttu eftir það ætluðum við að skella okkur í sápurennibraut, þar sem nýnemarnir okkar myndu signa sig og fara með bæn okkar Lauganema. Vegna veðurs þurfti að fresta þeim viðburði um tæpa viku. Þess í stað var farið í skotbolta og leiki á torginu. Keppnisskapið var mikið hjá sumum nemendum á meðan aðrir hlógu að þeim sem pirraðir voru. Meira var ekki gert í Brunni þennan dag, en nemendurnir fóru í hópefli seinna um kvöldið.  

Fimmtudagur 

Síðasti dagur Brunnsins var viðburðarríkur. Dagurinn byrjaði snemma þegar allir hópuðust saman í tvær rútur og ferðinni var heitið til Grenivíkur. Laufás var fyrsti viðkomustaðurinn þar sem bóndinn þar á bæ tók á móti okkur og kynnti okkur fyrir bænum. Þar var verk okkar að taka myndir eða upptöku af okkur sýna hvernig við töldum verk hafa verið unnin áður fyrr. Heimsóknin var lærdómsrík og áhugavert að skoða gamla bæinn. Áfram var haldið til Grenivíkur þar sem við tók ratleikur. Okkur var skipt niður í lið til að leysa þrautir og þurftum við að reyna að safna sem flestum stigum fyrir okkar lið til að vinna. Þrautirnar voru margar og fjölbreyttar alveg frá því að sjá hver væri besti grillarinn yfir í hvert okkar væri best í að stýra kajak. Eftir marga klukkutíma af ratleik hoppuðum við upp í rútu á leið til Akureyrar. Á Akureyri var margt hægt að bralla og nýttu sér margir það og skruppu t.d. í bókabúðir að kaupa skólabækur. Í lok frítímans fórum við öll saman á Vitann og snæddum saman kvöldverð og héldum svo heim í Laugar. 

Nöfn nemenda: Edda Hrönn Hallgrímsdóttir, Elísabet Þráinsdóttir. 

Deila