Félagsstarf 60 ára og eldri í Þingeyjarsveit komu í heimsókn

Við fengum góða heimsókn sl. þriðjudag þegar eldri borgarar í Þingeyjarsveit komu í skólann. Tilefnið var að fræðast um nýjan áfanga í Laugaskóla um Vesturferðir Íslendinga og ferð kennara til Vesturheims. Eldri borgarar byrjuðu komu sína á því að þiggja hádegismat þar sem boðið var upp á lambalæri með öllu tilheyrandi.  

Ragna Heiðbjört hefur mótað og kennt þennan áfanga um Vesturferðir Íslendinga og vesturíslensku sem hefur m.a. fengið umfjöllun í Landanum. Ragna byrjaði á því að segja eldri borgurum almennt frá skólastarfinu, viðfangsefni í íslenskuáföngum og hvernig þessi áfangi hefði orðið til sem byggðist á miklu lestrarefni um örlagasögu vesturfaranna. Við það má bæta að það sem er sérstakt við þennan áfanga er að kennslan um Vesturferðirnar tengjast konu sem ólst upp í Reykjadal og Aðaldal og fluttist til Vesturheims í lok 19. aldar, sem gerir áfangann svo lifandi við raunverulegan atburð. Nemendur í áfanganum hafa spurt um afdrif konunnar sem varð til þess að Ragna og Kristján fóru siðastliðið sumar til Vesturheims þar sem afkomendur konunnar fræddu þau um hvernig henni hefði gengið að koma sér fyrir og lifa í ólíku samfélagi þar sem aðstæður voru oft og tíðum erfiðar. Það var því ánægjulegt að segja eldri borgurum frá áfanganum, ferðalaginu vestur um haf og ýmissa áhugaverðra staða í Kanada. 

Að fyrirlestri loknum var öllum boðið í kaffi þar sem borin var fram hin fræga vínarterta. Við þökkum eldri borgurum kærlega fyrir góða heimsókn.  

smelltu á myndirnar til þess að sjá þær stærri 

Deila