Nú er skólinn byrjaður á ný, eftir gott og langt jólafrí. Á þessari önn byrjuðu tíu nýjir nemendur og við bjóðum þá hjartanlega velkomin til okkar.
Í desember var mikil vinna í gangi í íþróttahúsinu en þar var verið að setja nýtt gólf. Á þessu gólfi eru merktir fjórir bocciavellir, fjórir badmintonvellir, þrír körfuboltavellir, þrír blakvellir, tveir hraðastigar og einn handboltavöllur. Gólfið er tvílitt, blátt og grátt og er aðalblakvöllurinn í öðrum lit. Mun bjartara er í húsinu eftir skiptin, gólfið mýkra og meiðslahætta minni.
Síðasta önn gekk mjög vel, meðalraunmæting allra nemenda var 86,2% og 18 nemendur voru með 97% raunmætingu eða betur og ávinna sér þannig frídag á vorönninni. Meðaleinkunn skólans var einnig rúmlega hálfum hærri en hefur verið undanfarin sjö ár og enginn nemandi á 1. ári féll í nokkru fagi. Við á Laugum erum ákaflega stolt af okkar nemendum og væntum þess að vorönnin verði ekki síðri en haustönnin.
Framundan er þorrablót nemenda og starfsfólks, en það verður í byrjun febrúar
Undirbúningur Tónkvíslarinnar er hafinn, en söngkeppnin verður haldin í 15. skipti þann 22. febrúar. Söngkeppnin fer fram í íþróttahúsinu og munu nemendur frá Fl og grunnskólnum næsta nágrennis taka þátt. Hægt er að skrá sig sem keppanda hér!