iWall

Image

Í tilefni af 30 ára afmæli Framhaldsskólans á Laugum færðu Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur og Sparisjóður Suður-Þingeyinga skólanum að gjöf tæki sem kallast iWall.
iWall er æfingatæki þar sem blandað er saman tölvuleikjum og hreyfingu. Um er að ræða nokkurs konar hermi samanber golfhermi. Leikmaðurinn stjórnar leikjunum með hreyfingum sínum og getur hann keppt við sjálfan sig eða félaga en tveir geta verð í tækinu í einu.
Þetta er fyrsta tækið þessarar tegundar sem flutt er til Íslands, en framleiðsluland þess er Finnland og hafa þessi tæki verið seld til fjölmargra skóla í Evrópu og Norður Ameríku auk skóla í heimalandinu.

Gjöf þessi er hugsuð sem stuðningur við þá áherslu sem skólinn leggur í starfi sínu á hreyfingu sem eðlilegan og mikilvægan þátt í daglegu starfi. Eins er hægt að nota vegginn til þjálfunar fyrir þá sem stunda hreyfingu með árangur sem markmið. En síðast en ekki síst er um að ræða leiktæki fyrir einstaklinga og hópa þar sem líkamleg hreyfing er nauðsynleg til að knýja áfram leikinn.