Birt 15. desember, 2025
Litlu jólin haldin hátíðleg í Framhaldsskólanum á Laugum
Þann 11. desember klukkan 18:00 voru haldin eftirminnileg litlu jól í Framhaldsskólanum á Laugum þar sem nemendur og kennarar fylltu matsalinn og skemmtu sér konunglega. Mötuneytið bauð upp á ótrúlega góðan mat þar sem var forréttur, aðalréttur og eftirréttur, flestir fóru svo sannarlega saddir heim.

Leikir og skemmtiatriði á vegum skemmtinefndar
Helga María forseti nemendafélagsins var veislustjóri og skemmtinefndin setti upp leiki og skemmtiatriði og þar komu fram t.d. karlakórinn Litlir Að Neðan sem sungu fyrir okkur. Stekkjastaur kom til byggða stinnur eins og tré og gaf vel völdum nemendum kartöflur og tók með okkur nokkur lög og hélt gleðinni gangandi. Eftir þetta fallega kvöld settu allir nemendur skóinn sinn fyrir utan hurðirnar sínar á vistinni og fengu góðgæti frá Stekkjastaur.

Frétt: Erla Bernharðsdóttir og Guðrún Karen Sigurðardóttir
