Nemendur og starfsmenn komu saman í Þróttó

Birt 11. desember, 2025

Starfsmenn og nemendur komu saman í Þróttó

Í gær, þann 10. desember komu nemendur og starfsmenn saman í Þróttó þar sem nemendur, í íslenskuáfanganum um Vesturferðir Íslendinga og vesturíslensku sýndu brot af því helsta sem þau hafa unnið að á þessari önn. Dagskráin hófst á því að nemendur fluttu lagið Saga konunnar eftir Harald Reynisson tónlistarmann. Þar á eftir voru fróðlegir upplestrar.

Nemendur gerðu myndband um sorgmædda Íslendinga

Nemendur gerðu einnig myndband og brugðu sér í 19. aldar klæðnað til að leika hóp sem fluttist frá Íslandi. Nemendur gerðu einnig lag og texta sem notað var í þessu myndbandi. Textinn er um sorgmædda Íslendinga sem fluttust til Kanada í upphafi 19. aldar þar sem þeir vissu ekki alveg hvað myndi taka við þegar þeir kæmu þangað.

Textinn speglar sorg

Textinn speglar sorg þar sem Ísland mun alltaf eiga stað í hjarta þeirra þó þau hafi flust í annað land. Við fengum ma. að heyra nemendur segja frá fréttum í dagblaði sem þeir nefndu „Vesturfréttir“. Auk þess fengum við góða sýn á Klettafjallaskáldið og hvernig íslenskan þróaðist þar vestra. 

70 ár frá því að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaun

Þess má einnig geta að þar sem liðin eru 70 ár frá því að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaun, þann 10, desember 1955, las nemandi brot úr Sjálfstæðu fólki. Það var því auðvelt að tengja bók Halldórs við afurðir í þessum áfanga þar sem lesinn var texti þegar Nonni litli í Sumarhúsum bauðst að fara til Ameríku. 

Öllum boðið í sjö laga vínartertu með sveskjusultu

Það má því segja að við höfum verið að minnast þess að 70 ár eru liðin frá því að  Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaun og að 150 ár séu liðin frá því að fyrsti hópurinn fór til Vesturheims, árið 1875. Í lok dagskrár var flutt lagið „Sólstafir yrkja“.

Að því loknu var öllum boðið í vínartertu, sjö laga með sveskjusultu, sem nemendur hafa nýverið bakað að vestur-íslenskum sið í Kanada. 

Deila