Jólatónlist og heitt kakó

Birt 8. desember, 2025

Matsalurinn fylltist af hlátri og jólatónlist

Þriðjudaginn 2. desember voru krakkarnir í Laugaskóla komnir í algjört jólaskap. Þau föndruðu alls konar jólasnilld, eins og snjókarla og sumir perluðu litríkar jólaperlur. Það var líka hægt að skreyta piparkökur og skera út laufabrauð, og margir sátu saman við borð og sköpuðu sín eigin jólaverk. Matsalurinn fylltist af hlátri, jólatónlist og góðri stemmningu, og það var ljóst að krakkarnir voru að fara inn í desember mánuð fullir af gleði og eftirvæntingu fyrir jólin. 

Heitt kakó eftir kaldan ratleik

Eftir föndrið fóru krakkarnir í skemmtilegan púslratleik út í skóg, þar sem þau hlupu á milli trjánna að finna púsl saman í hópum. Þegar allir voru búnir í ratleiknum komu þau inn aftur í hlýjuna, settust saman og fóru að púsla inni í matsal. Þar var spiluð jólatónlist og boðið upp á heitt kakó, smákökur og kex, sem gerði stemninguna enn jólalegri. Það var góð lykt af kakóinu og allir nutu þess að sitja saman, hlæja og spjalla eftir gleðilegan dag úti í kuldanum. 

 Frétt: Alexía Líf Ómarsdóttir og Emelía Björk Nönnudóttir 

 

Deila