Ný hlaupabretti í íþróttahúsið á Laugum

Birt 5. desember, 2025

Magnús Már Þorvaldsson forstöðumaður Sundlaugarinnar á Laugum skrifar skemmtilegan pistil á facebook síðu laugarinnar sem við birtum hér ásamt myndum sem hann tók.

Gömul bretti og ný – bestu hlaupabretti á Norðurlandi á Laugum?
Að gefnu tilefni hefur helgin verið annasöm í kringum líkamsræktina í íþróttamiðstöðinni á Laugum en Framahaldsskólinn, eigandi líkamsræktarinnar, endurnýjaði hlaupabretti sín með afgerandi hætti.
Spurt er í fyrirsögn hvort mögulega státi ræktin á Laugum nú af bestu hlaupabrettum líkamsrækta á Norðurlandi. Í sjálfu sér skiptir það ekki máli en þau hlaupabretti sem skólinn hefur fjárfest í eru af miklum gæðum, fyrsta flokks TechnoGym-tæki sem munu án alls efa gleðja hvern þann sem á þau fer.
Þessi bretti prýða allar stærstu líkamsræktarstöðvar landsins og raunar um veröld alla. Þessi koma frá Sporthúsinu hvar bræðurnir og Laugamennirnir Þröstur og Ingi Páll eru alls ráðandi. Sigurður Þrastarson Sigurðssonar kom með brettin norður og vann þá vinnu sem vinna þarf til að fá þau til að virka. Og það gera þau sannarlega!
Vill undirritaður koma á framfæri þakklæti f.h. okkar Bjössa skólameistara þeim góða hópi er lagði okkur lið við að koma gömlu brettunum úr húsi og nýjum inn. Jón Sverrir verðskuldar hól fyrir verkstjórnina er tryggði fumlaus vinnubrögð í hvívetna. Nú býðst gestum líkamsræktarinnar á Laugum enn betri aðstaða en var fyrir fáeinum dögum – verið hjartanlega velkomin!
Meðf. eru myndir af verkefninu þegar gömul bretti kvöddu og ný tóku við.
-Maggi

Deila