Nemendur í útskriftarferð

Birt 18. nóvember, 2025

Flogið frá Akureyri til Gatwick

Þann 4. nóvember síðastliðinn, eftir langt uppbrot á hefðbundnu skólastarfi með afmælishátíð og Tónkvísl, fóru nemendur í útskriftarferð. Nemendurnir voru 21 talsins en með þeim fóru tveir starfsmenn. Flogið var frá Akureyri til Gatwick og gist á Radison Red en á meðfylgjandi mynd má sjá nemendur stilla sér upp við styttu hótelsins.

 

Daginn eftir flaug hópurinn áfram til Barcelona og fór með rútu til Lloret de Mar þar sem dvalið var í 6 nætur og m.a. farið í Horrorland. Horrorland er opnað árlega í kringum hrekkjavökuna en þá er vatnsleikjagarði breytt í hrollvekjuhátíð með alls kyns kynjaverum. Þriðjudaginn 11. nóvember yfirgaf hópurinn Lloret de Mar, fór í PortAventura skemmtigarðinn og varði deginum þar áður en hann innritaði sig á hótel Barcelona þar gist var tvær nætur.

Tvær nætur í London 

Á fimmtudeginum var flogið aftur til Gatwick og gist tvær síðustu næturnar. Farið var tvisvar í leikhús í London, á fimmtudagskvöldinu fóru 13 manns í Victoria Palace Theatre að sjá Hamilton og á föstudagskvöldinu fóru 8 manns í The Hippodrome Casino að sjá Magic Mike.  

Deila