iWall

Image

Birt 15. febrúar, 2019

Í tilefni af 30 ára afmæli Framhaldsskólans á Laugum færðu Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur og Sparisjóður Suður-Þingeyinga skólanum að gjöf tæki sem kallast iWall.
iWall er æfingatæki þar sem blandað er saman tölvuleikjum og hreyfingu. Um er að ræða nokkurs konar hermi samanber golfhermi. Leikmaðurinn stjórnar leikjunum með hreyfingum sínum og getur hann keppt við sjálfan sig eða félaga en tveir geta verð í tækinu í einu.
Þetta er fyrsta tækið þessarar tegundar sem flutt er til Íslands, en framleiðsluland þess er Finnland og hafa þessi tæki verið seld til fjölmargra skóla í Evrópu og Norður Ameríku auk skóla í heimalandinu.

…Lestu áfram

Viktor og María Rós Laugameistarar í miðjubolta

Image

Birt 14. febrúar, 2019

Á mánudaginn fór fram Laugamótið í miðjufótbolta sem er einstaklingskeppni þar sem spila 1 á móti 1 og það þarf að skjóta boltanum frá eigin vallarhelmingi. Tveir keppendur tóku þátt í kvennaflokki þar sem María Rós sigraði. María tók síðan líka þátt í karlaflokki og stóð sig vel. Alls voru 8 keppendur í karlaflokki og í undanúrslitum mættust annars vegar Stefán Bogi og Viktor Alexander en hins vegar Mikael og Óliver. Eftir hörkuleiki fór það svo að Viktor og Óliver unnu sína leiki og mættust í úrslitaleik. Þar stóð Viktor uppi sem sigurvegari, vann leikinn 2 – 0. Við óskum þeim Maríu Rós og Viktori Alexander til hamingju með titilinn „Laugameistari í miðjubolta“.

Vistarkeppni nemenda

Image

Birt 11. febrúar, 2019

Núna eftir áramótin hefur verið í gangi vistarkeppni í skólanum þar sem keppa annars vegar íbúar á Tröllasteini og hins vegar íbúar á Fjalli/Álfasteini og utanvistar nemendur.

Búið er að keppa í 3 greinum og hefur skapast skemmtileg stemning í kringum þessa viðburði. Síðastliðinn fimmtudag áttust liðin við í blaki. Fyrir leikinn höfðu Fjall/Álfasteinn/utanvistar nemendur haft sigur í bæði fót- og handbolta með þó nokkrum yfirburðum, þá sérstaklega í handboltanum. Lið Tröllasteins mætti hins vegar gríðarlega öflugt til leiks í blakinu og hafði mikla yfirburði og hreinlega völtuðu yfir andstæðinga sína og hefndu fyrir útreiðina sem þau höfðu fengið í handboltanum.

 Lið Tröllasteins náði þannig að rétta aðeins sinn hlut í heildarkeppninni milli liðanna. Spennandi verður að fylgjast með framvindu mála á næstu vikum hvort þessi sigur færir liði Tröllasteins það sjálfstraust sem þarf til að sækja fleiri sigra eða hvort þessi kalda vatnsgusa sé nóg áminning fyrir Fjall/Álftastein/utanvistar nemendur um að ekkert megi slaka á í baráttunni um vistarbikarinn.