Birt 3. september, 2025
Það er mikið um að vera í litlum heimavistarskóla út á landi þegar krakkar flykkjast í Reykjadalinn til að hefja skólagöngu sína. Strax á fyrsta degi eftir skólasetningu var farið með alla nemendur í árlega ferð um nágrennið sem er ætluð til að kynna nágrenni skólans og þjappa hópnum saman.
Eftir skólafund á fimmtudagsmorgni var haldið af stað í tveimur rútum upp í Mývatnssveit þar sem Gestastofa Gígs var heimsótt. Þar tóku á móti okkur þrír landverðir sem fóru með okkur í göngu um Skútustaðagíga og kynntu starf sitt og skoðuð var sýning sem er í gangi í Gestastofunni. Mývatnssveit skartaði sínu fegursta með sól og björtu veðri eins og myndirnar sýna.
Næst lá leiðin að Dettifossi þar sem allur hópurinn gekk niður að fossinum og tekin var hópmynd og svo haldið áfram niður í Ásbyrgi. Þegar þangað var komið beið okkar grillveisla en þær Eydís og Silla voru búnar að kveikja upp í grillinu og grilla pylsur ofan í liðið. Í Ásbyrgi áttum við góða stund í góðu veðri þar sem krakkarnir fóru m.a. í ratleik ásamt því að njóta í góða veðrinu. Frá Ásbyrgi var haldið heim í Laugar og deginum lokað með kjúkling og meðlæti að hætti starffólks mötuneytis.
Skemmtilegur dagur með skemmtilegum hóp og eins og áður voru krakkarnir sér og okkur til fyrirmyndar.
Bjarney Guðrún Jónsdóttir