Skíðaferð

Miðvikudaginn 8. mars sl. fóru nemendur Framhaldsskólans á Laugum til Akureyrar þar sem ferðinni var heitið upp í Hlíðarfjall. Dagurinn var tekinn snemma og að loknum morgunverði var lagt af stað. Guðmundur Smári Gunnarsson, kennari og María Jónsdóttir, námsráðgjafi voru þeim til halds og trausts í ferðinni. Þau voru einnig myndasmiðir þar sem þau tóku skemmtilegar myndir af nemendum ýmist á fljúgandi ferð, nýdottin eins og vera ber um brekkurnar á skíðum og brettum, eða að gæða sér á nestinu.  Ekki er hægt að segja annað en veðrið hafi verið þeim hliðhollt, eins og sést á myndunum. Skíðaferðin gekk eins og best verður á kosið og þegar líða tók á daginn var haldið af stað til byggða og þá varð veitingastaðurinn Greifinn fyrir valinu þar sem boðið var upp á pizzuhlaðborð.