Mikið líf og fjör

Image

Mikið líf og fjör hefur verið á Laugum seinustu daga og vikur en 9. og 10.bekkingar úr grunnskólum Akureyrar hafa verið í heimsókn hjá okkar.

Grunnskólanemendur koma og fá kynning á námi, námsframboði, skólaumhverfi og félagslífi. Hús skólans eru skoðuð, kíkt á heimavistarherbergi, hreyfiveggurinn okkar prófaður og örlítið sprellað í íþróttahúsinu. Hverri heimsókn lýkur svo með ljúffengum hádegismat í mötuneytinu. Við þökkum grunnskólanemendum Akureyrar og starfsfólki kærlega fyrir komuna.

Reynslunni ríkari eftir veturinn

Image

Blaklið skólans gerði fína ferð í Kópavoginn um síðustu helgi þar sem þeir spiluðu í síðasta helgarmótinu í 3. deild Íslandsmótsins.  Það fór svo að liðið endaði veturinn í 5. sæti deildarinnar og eru reynslunni ríkari eftir veturinn og eru klárlega búnir að setja viðmið til að bæta sig enn meira fyrir næsta vetur. Þeir sem spiluðu í þessu síðasta móti voru: Haukur, Sigurður, Óliver, Árni Fjalar, Guðmundur Gígjar og Stefán Bogi ásamt þeim Bjössa skólameistara og Gumma kennara sem fylltu uppí hópinn fyrir strákana. 

 

Dýrafræði

Image

Nemendur í dýrafræði hafa verið að læra um fiska og fengu tækifæri til að kynnast líffræði bleikjunnar betur en áður með því að kryfja slíkan fisk. Höfðu nemendur gagn og gaman að en einn nemandi hafði nýlokið við að halda fyrirlestur um bleikjur fyrir samnemendur sína í dýrafræðiáfanganum.

Laxárverkefni

Image

Nemendur hafa unnið hörðum höndum í „Laxárverkefninu“ en það snýst um að skoða smádýralíf ofan og neðan Laxárstöðvanna í Laxá. Sýnum hefur verið safnað mánaðarlega í að verða eitt ár (ein sýnatökuferð eftir). Sýnin eru mjög umfangsmikil (mörg dýr í hverju sýni) og því fóru nokkrir nemendur með Gumma kennara (og verkefnisstjóra) heim að Hólum í Hjaltadal þar sem unnið var á rannsóknarstofu Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar (staðsett á Sauðárkróki) með tæki sem getur skipt sýnunum til helminga. Svo fór að ekki náðist að klára að skipta sýnunum og fékkst því tækið lánað í Laugar í örfáa daga áður en þess var þörf annarsstaðar. Framundan er mikil vinna við að greina og telja dýrin sem eru í sýnunum og spennandi verður að sjá hverjar niðurstöðurnar verða.