Áætlun um viðbrögð við einelti, ofbeldi og áreitni

Í Framhaldsskólanum á Laugum er engin birtingarmynd eineltis, ofbeldis og áreitni liðin. Birtingamyndir ofbeldis og eineltis geta verið margs konar t.d. neikvætt og illgirnislegt atferli sem felur í sér endurtekið áreiti og/eða ofbeldi, líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt. 

Ofbeldi getur birst á mismunandi hátt. Andlegt einelti felst m.a. í stríðni, útilokun, hótunum eða höfnun. Líkamlegt einelti getur verið barsmíðar, spörk, hrindingar eða meiðingar af öðru tagi. Kynferðislegt ofbeldi getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn athugasemd eða spurningar um kynferðisleg málefni. 

 Dæmi: 

 • niðurlæging eða auðmýking t.d. vegna aldurs, kynferðis, kynhneigðar eða þjóðernis 
 • niðurlægjandi eða lítilsvirðandi texti eða myndir sendar rafrænt t.d. gegnum samskiptaforrit eða með öðrum skriflegum sendingum 
 • fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali 
 • óþægileg stríðni eða tilraun til fyndni á kostnað annarra 
 • rógi eða meiðandi sögusögnum er komið af stað 
 • útilokun frá félagslegum samskiptum 
 • særandi athugasemdir 

 Athugið að ekki er um tæmandi yfirlit að ræða.

Að þekkja einkenni 

Sá sem verður fyrir ofbeldi eða áreitni segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfum sér jafnvel um. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki möguleg einkenni afleiðinga: 

Einstaklingur 

 • lýsir andúð á skólanum 
 • hættir að sinna námi eða vinnu, einkunnir lækka 
 • hættir að koma í matsal og/eða íþróttahús
 • er oft skráður veikur 
 • vill ekki taka þátt í félagsstörfum og einangrast félagslega 
 • er mikið einn inni í herbergi 
 • missir sjálfstraustið 
 • virðist óhamingjusamur, niðurdreginn, þunglyndur eða í andlegu ójafnvægi 
 • hefur slæma matarlyst, höfuðverk eða magapínu 
 • þjáist af svefntruflunum 
 • hefur þreytutilfinningu eða sýnir sljóleiki 
 • neitar að segja frá hvað amar að 
 • sýnir miklar skapsveiflur, verður árásargjarn og erfiður viðureignar 

Verði starfsfólk, foreldrar eða nemendur vör við einhver þessara einkenna eða önnur sem benda til að nemanda eða starfsfólki líði illa er mikilvægt að kanna málið og hafa samband við stjórnendur eða náms- og starfsráðgjafa. 

Aðgerðaáætlun 

Framhaldsskólinn á Laugum leggur áherslu á heilsueflandi umhverfi og lífsstíl. Öllum á að geta liðið vel í skólanum og njóta virðingar sem einstaklingar. 

 • Brýnt er fyrir nemendum skólans að þegar ágreiningur kemur upp þeirra á milli sé rétt að ræða málin og reyna að komast að málamiðlun og fá aðstoð til þess frá öðrum ef á þarf að halda. Þetta er rætt við nemendur t.d. af leiðsögukennurum. 
 • Nemendur sem og aðrir eru hvattir til að láta stjórnendur eða náms- og starfsráðgjafa vita ef þeir eða aðrir verða fyrir einelti eða ofbeldi. Hægt er að koma ábendingum á framfæri með því að hitta ofangreinda aðila á skólatíma, hafa samband símleiðis, senda tölvupóst (náms- og starfsráðgjafa, skólameistara, áfangastjóra eða leiðsögukennara) eða senda inn tilkynningu í gegnum heimasíðu skólans. 
 • Nemendur eru hvattir til að taka afstöðu gegn ofbeldi, einelti og nemendur fræddir um þá afstöðu skólans að ofbeldi, einelti og áreitni líðst ekki. Verði nemendur uppvísir að slíku geti viðurlögum verðið beitt ef þurfa þykir. 
 • Kanna skal líðan nemenda reglulega. Ef upp kemur tilkynning um ofbeldi, einelti eða áreitni er það í höndum starfshópsins að vinna að lausn málsins. Þrír starfsmenn skólans eiga sæti í hópnum: Náms- og starfsráðgjafi, áfangastjóri og heimavistarstjóri. 

 

Áætlun um viðbrögð við ofbeldi, áreitni og einelti

 

Nánari skýringar á verkferli skv. mynd 

 1. Tilkynning eða ábending um áreitni, ofbeldi eða einelti.  

Mikilvægt er að starfsmenn og nemendur séu vel vakandi fyrir öllum birtingarmyndum áreitni, ofbeldis og eineltis og tilkynni það tafarlaust til starfsmanns eða í gegnum heimasíðu skólans. Fái starfsmaður tilkynningu eða ábendingu skal hann tilkynna þeim sem kom með upplýsingarnar til hans að hann muni koma þeim áfram til námsráðgjafa. Starfsmaður fer með tilkynningu eða ábendingu til námsráðgjafa tafarlaust. Námsráðgjafi fylgist daglega með því hvort tilkynningar eða ábendingar hafi borist í gegnum heimasíðu skólans. Námsráðgjafi upplýsir skólastjórnendur um tilkynninguna eða ábendinguna og sett er saman teymi til þess að skoða málið (stundum getur þurft að leita til utanaðkomandi fagaðila). Mál er stofnað í rafrænum gagnagrunni. 

 2. Málið er skoðað og metið – viðtal við þolanda og geranda 

Teymi skoðar málið og metur. Misjafnt er hverjir eru í teyminu eftir atvikum og aðstæðum, námsráðgjafi er alltaf í teyminu og algengt er að heimavistarstjóri, hjúkrunarfræðingur, leiðsagnarkennari og/eða skólastjórnendur séu í teyminu. Teymið tekur viðtöl við þolanda/þolendur, geranda/gerendur og ef til vill vitni. Teymið metur svo næstu skref málsins í eitt af þremur mögulegum ferlum: 

 • Ekki ástæða til aðgerða né eftirfylgni 

Máli er þá lokið en upplýsingar eru skráðar í rafrænan gagnagrunn svo hægt sé að skoða gögn málsins síðar ef tengd atvik koma upp. 

 • Ástæða til að fylgjast með 

Teymi fylgist með aðstæðum og atvikum sem tengjast málinu, fundar reglulega og metur málið upp á nýtt.  

 • Ástæða til aðgerða 

Foreldrar þolanda og geranda eru upplýstir um málið (ef við á) og þeim tjáð að skólinn þurfi að senda tilkynningu til barnaverndar (ef við á). Þá er send tilkynning til barnaverndar (ef við á).  

Unnið er með þolanda og foreldrum (ef við á) eftir óskum hans og er áhersla lögð á bætta líðan og stuðning. Þolanda er boðið upp á fjölbreytt úrræði og námsráðgjafi hefur yfirumsjón með eftirfylgni málsins.  

Meta þarf alvarleika málsins með tilliti til óska þolanda, skólareglna, laga um framhaldsskóla 92/2008, stjórnsýslulaga 37/1993 og annarra laga sem málið varðar.  

Unnið er með geranda og foreldrum (ef við á) að því að breyta hegðun hans (í samstarfi við foreldra ef við á). Eftirfylgni undir stjórn námsráðgjafa. 

Sé alvarleiki málsins metinn svo að virkja þurfi grein 33a, 4. mgr. laga um framhaldsskóla 92/2008 er metið hvort víkja þarf geranda úr skóla eða áfanga tímabundið eða ótímabundið. Sé geranda vikið úr skóla eða áfanga tímabundið á meðan mál er óútkljáð þarf við lok málsins að skera úr um hvort gerandi fær að koma aftur í skólann eða áfangann eða ekki. Komi hann aftur er eftirfylgni undir stjórn námsráðgjafa. Sé ákveðið að víkja þurfi geranda úr skóla ótímabundið er það gert m.t.t. stjórnsýslulaga 37/1993. 

Laugum, vor 2023.

Deila