Erlendir nemendur

Vel er tekið á móti nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku en sérstakri mótttökuáætlun er gert að tryggja það.

Móttökuáætlun Framhaldsskólans á Laugum fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku

Samkvæmt reglugerð nr. 654/2009 um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku skulu framhaldsskólar setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Reglugerð þessi er sett með heimild í 35. grein laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Móttökuáætlun FL byggist á þessari reglugerð svo og sérstöðu skólans sem er lítill heimavistarskóli í sveit.

Reglugerð þessi kveður á um rétt nemenda í framhaldsskólum, sem hafa annað móðurmál en íslensku, eða hafa dvalið langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku, til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.

Markmið námsins er að nemendur verði færir um að skilja og nota íslenskt mál, stunda nám í FL eða öðrum framhaldsskóla, taka virkan þátt í félagslífi skólans, verði færir um að stunda frekara nám sem og að taka virkan þátt í íslensku samfélagi.

Til að ná þessum markmiðum nýtur nemandinn skipulagðs samstarfs ákveðinna starfsmanna innan skólans. Þar fara í fararbroddi íslenskukennari fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, námsráðgjafi og umsjónarkennari/leiðsagnarkennari í samstarfi við fagkennara, áfangastjóra, bókavörð, húsbændur og aðra starfsmenn skólans. Þá er lögð áhersla á gott samstarf við foreldra og forráðamenn. Í þeim tilfellum sem starfsmenn FL telja sig þurfa frekari aðstoð, en hægt er að veita innan skólans, meta umsjónarkennari, íslenskukennari fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og námsráðgjafi hvenær og hvert skal leitað með ráðgjöf og aðstoð hverju sinni. Öll frekari ákvarðanataka er framkvæmd í fullu samráði við viðkomandi foreldra/forráðamenn.

Móttökuáætlun FL tekur mið af bakgrunni nemenda, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu, stuðningi og öðrum úrræðum sem skólinn getur veitt. Í upphafi skólaárs er reynt að meta þessa þætti svo sem kostur er á. Það mat er á hendi þess kennara er sinnir íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og umsjónarkennara/leiðsögukennara viðkomandi nemanda. Sé nemandi að hefja nám við skólann er haft samband við þann grunnskóla eða aðra skóla sem hann kemur frá, það gerir umsjónarkennari viðkomandi nemanda. Í mörgum tilfellum er gert ráð fyrir því að gerð sé einstaklingsnámskrá fyrir nemendur. Íslenskukennari fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku við FL metur hvert tilvik fyrir sig og hefur yfirumsjón með gerð einstaklingsnámskrár í samráði og samvinnu við námsráðgjafa.

Varðandi skipulag og framkvæmd kennslu er eftirfarandi tíundað í reglugerðinni: ,,Íslenska sem annað tungumál felur í sér þjálfun í íslensku og virka þátttöku í íslenskri menningu, menningarfærni, viðhald læsis og þekkingu í öllum námsgreinum. Viðfangsefni íslenskukennslunnar eru samræmd og samhæfð öllum námsgreinum og leitast skal við að þróa námsaðferðir og námstækni til að mæta þörfum nemenda. ” (Reglugerð nr. 654/2009, bls. 2). Til kennslunnar eru ætlaðir sérstakar kennslustundir, auk þess sem nemendur vinna að verkefnum sínum í vinnustofum. Íslenskukennari fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku metur í samráði við námsráðgjafa hvenær viðkomandi nemandi er hæfur til að stunda nám í einstökum faggreinum. Íslenskukennari nemenda með annað móðurmál en íslensku í FL er í stöðugu sambandi við faggreinakennara nemenda og aðstoðar þá við lestur og annað er tengist námi þeirra í öðrum námsgreinum. Allt miðar þetta að því að auka færni og getu nemenda til að fást við sem flestar námsgreinar FL.

Í reglugerðinni er lagt til að í skólanámskrám birtist lýsing á áföngum sem í boði eru í íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Þessar áfangalýsingar birtast hér að aftan.

Samkvæmt reglugerðinni er FL heimilt að meta móðurmál nemenda til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað annars erlends tungumáls. Þessu mati sinnir áfangastjóri. Áfangastjóri hefur einnig með höndum alla fyrirgreiðslu við nemendur varðandi stöðupróf sem þeir þurfa að sækja í aðra skóla. Skólinn mun einnig leita tækifæra fyrir nemendur til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein óski þeir þess, annað hvort með fjarnámi við annan skóla eða sem tengiliður t.d. við gagnasöfn, bókasöfn, félög eða einstaklinga sem veitt getur nemendum aðgang að námi eða þjálfun í eigin móðurmáli. Námsráðgjafi er nemendum innan handar við þessi atriði í samráði við áfangastjóra.

Haft er eftirlit með félagslegri stöðu nemenda og kapp lagt á það að gera viðkomandi nemendur færa um að takast á við félagslíf og samneyti við aðra í skólanum. Í móttökuáætlun FL er lögð áhersla á gagnkvæma upplýsingagjöf á milli skóla og heimila þar sem lögð er áhersla á að foreldrar og forráðamenn þekki starfshætti skólans, þjónustu, skólareglur, félagslíf og annað er telja verður gagnlegt með tilliti til velfarnaðar nemandans.Um þennan þátt sér umsjónarkennari viðkomandi nemanda.

Deila