Vinnustöðvar

Hver nemandi fær persónulega vinnustöð í opnu rými þar sem hann getur unnið í vinnustofutímum sem og utan hefðbundins skólatíma. Á þessari vinnustöð getur nemandinn geymt námsbækur, námsgögn og aðra muni sem tengjast náminu. Þetta fyrirkomulag gefur möguleika á sveigjanlegu námsumhverfi og samfelldum skóladegi án eyða í stundaskrá nemenda. Það gefur nemandanum færi á að nýta tíma sinn betur, bæði til náms og tómstunda.

Sveigjanlega námsumhverfið þar sem nemendur stunda nám sitt í opnu vinnurými í vinnustofutímum undir verkstjórn kennara auk þess að mæta í hefðbundnar kennslustundir þar sem kennarar eru með sínum hóp kallar á aðrar og fjölbreyttari námsaðferðir. Nemandinnn fær einnig persónulega leiðsögn gegnum framhaldsskólann og honum gert kleift að ráða nokkru um námshraða sinn.

Með sveigjanlegu námsumhverfi og persónubundinni námsáætlun opnast möguleiki til að sinna öllum nemendum sem einstaklingum, bæði þeim sem standa höllum fæti í námi og ekki síður þeim sem búa yfir mestri námslegri færni. Nemendur geta tekið ákveðna námsáfanga eða námsbrautir á þeim hraða sem þeir ráða við og í boði eru hverju sinni. Kjósi nemandi að hraða námi sínu kallar það á meira vinnuframlag utan hefðbundins skóladags.

Með þess vonast skólinn til að:

 • gera skólann að betri skóla
 • auka gæði náms við skólann
 • bæta námsárangur
 • bæta mætingu og minnka brottfall
 • geta sinnt öllum nemendum skólans á einstaklingsmiðaðan hátt, þar sem tekið er tillit til námsgetu og þroska hvers einstaklings fyrir sig
 • bæta líðan nemenda í skólanum
 • auka ábyrgð nemandans á eigin námi
 • auka möguleika nemenda til að hraða námi sínu
 • búa nemendum námsumhverfi sem undirbýr þá enn betur undir þátttöku í atvinnulífi og frekara nám, m.a. með samfelldum skóladegi
 • halda betur utan um nemendur félagslega og námslega, m.a. með efldu umsjónarstarfi
 • beita fjölbreyttari námsaðferðum
 • auka möguleika kennara til samstarfs og samvinnu
 • stuðla að framþróun í notkun upplýsingatækni við skólann
 • skapa skólanum sérstöðu
Deila