“Kynjakvótakvöld” með Siggu Kling

Nemendafélag skólans hefur undanfarin ár staðið fyrir karla-og konukvöldi en í ár var brugðið á það ráð að fá þekktan skemmtikraft. Þar sem um tvær samkomur hefur verið að ræða þá var ákveðið að gera þetta að einni sameiginlegri kvöldskemmtun sem fékk heitið „kynjakvótakvöld“ þar sem allir nemendur skólans væru samankomnir.

Dagskráin í kvöld hófst með pizzuhlaðborði sem nemendur tóku þátt í að undirb
úa ásamt starfsfólki mötuneytis. Þegar nemendur höfðu gert pizzunum góð skil birtist hin eldhressa „Sigga Kling“ og skemmti nemendum fram eftir kvöldi þar sem hún fór á kostum.

Leiklist og æfingar

Nú á vorönn hófst leikstarfsemi þar sem Leikdeild Eflingar hóf æfingar á Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikstjóri sýningarinnar er Hörður Þór Benónýsson og tónlistarstjóri er Pétur Ingólfsson.  Margir nemendur skráðu sig til leiks og eru því í óða önn að samlesa þessa dagana ásamt öðrum einstaklingum í nærsamfélaginu. Æfingar fara fram öll virk kvöld í félagsheimilinu að Breiðumýri þannig að nóg er um að vera hjá nemendum að loknum hefðbundnum skóladegi. Áætlað er að sýningar muni hefjast fyrir páskafrí og verður nánar greint frá því síðar.

Samlestur á Breiðumýri

Skíðaferð

Miðvikudaginn 8. mars sl. fóru nemendur Framhaldsskólans á Laugum til Akureyrar þar sem ferðinni var heitið upp í Hlíðarfjall. Dagurinn var tekinn snemma og að loknum morgunverði var lagt af stað. Guðmundur Smári Gunnarsson, kennari og María Jónsdóttir, námsráðgjafi voru þeim til halds og trausts í ferðinni. Þau voru einnig myndasmiðir þar sem þau tóku skemmtilegar myndir af nemendum ýmist á fljúgandi ferð, nýdottin eins og vera ber um brekkurnar á skíðum og brettum, eða að gæða sér á nestinu.  Ekki er hægt að segja annað en veðrið hafi verið þeim hliðhollt, eins og sést á myndunum. Skíðaferðin gekk eins og best verður á kosið og þegar líða tók á daginn var haldið af stað til byggða og þá varð veitingastaðurinn Greifinn fyrir valinu þar sem boðið var upp á pizzuhlaðborð. 

Heimsókn læknanema “Ástráðsliðar”.

Í seinustu viku litu „Ástráðsliðar“ læknanemar við í framhaldsskólum á Norðurlandi og þar á meðal hjá okkur og héldu fyrirlestur um kynfræðslu. Fyrirlesturinn var vel sóttur af nemendum. Forvarnarstarf þeirra byggir á því að fækka kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum. Sjá nánar um forvarnarstarf læknanema á heimasíðu þeirra: http://www.astradur.is/

Bolludagur – sprengidagur – öskudagur

Undanfarnir þrír dagar hafa verið skemmtilegir að venju með tilheyrandi siðum sem fylgja þessum dögum. Bolludagur er fyrsti dagurinn og er alltaf á mánudegi  í 7. viku fyrir páska og barst sá siður hingað til lands seint á 19. öld og tengist nafnið „bolludagur“ hinu mikla bolluáti sem á sér stað. Segja má að þar höfum við ekki verið undanskilin þar sem hádegisverður hófst með kjötbollum, kaffimáltið með ógrynni af súkkulaðibollum og að endingu fiskibollum í kvöldmat.

Sprengidagur bar svo upp á þriðjudegi eins og venja er og gengum við glöð til hádegisverðar þar sem við fengum ilmandi saltkjöt og baunir að gömlum sið. Talið er að kjötátið sem á sér stað á sprengidag eigi rætur að rekja til katólsku og föstunnar sem hefst daginn eftir og nafnið „sprengidagur“ er að öllum líkindum tekið úr þýsku „Sprengtag“ og hefur því sennilega borist til Íslands með þýskum kaupmönnum.

Öskudagurinn er svo þriðji dagurinn í þessari skemmtilegu viku þar sem margir taka upp á því að syngja og fá gott fyrir. Víða var því boðið upp á sælgæti í skólanum þar sem bæði framhaldsskólanemendur og grunnskólanemendur Þingeyjarskóla létu í sér heyra með söng að ólgeymdum skemmtilegum búningum sem margir klæddust, bæði nemendur og starfsmenn.

Skólaheimsókn

Grunnskólanemar frá Bakkafirði, Mývatnssveit, Vopnafiriði og Þingeyjarsskóla dvöldu hér 14. – 15 febrúar sl. í skólaheimsókn. Nemendur komu um kaffileytið á þriðjudeginum og dvöldu fram yfir hádegi næsta dag. Nemendur Framhaldsskólans á Laugum höfðu veg og vanda af því að gera þessa skólaheimsókn áhugaverða og skemmtilega þar sem dvöl þeirra hófst í íþróttahúsinu og eftir kvöldmat var farið í leiki og spilað. Að loknu kvöldkaffi komst á ró og nemendur komu sér fyrir í heimavistarhúsnæðum skólans. Á miðvikudagsmorgni var svo skólakynning þar sem grunnskólanemar fóru í kennslustundir og fengu kynningu á nokkrum áföngum og að taka þátt í því sem fram fór í tímum. Að hádegisverði loknum héldu nemendur heim á leið. Það var ánægjulegt að fá þennan góða hóp hingað heim að Laugum og vonum við að þau hafi notið þeirrar stundar sem þau dvöldu hér.

Einn dagur í Tónkvísl – Undirbúningur

Tónkvíslin er tónlistarhátíð Framhaldsskólans á Laugum og hefur verið haldin í tengslum við undankeppni Söngkeppni framhaldsskólanna. Tónkvíslin er haldin í 12. sinn og var ákveðið að halda hana í ár þrátt fyrir að Söngkeppni framhaldsskólanna verði ekki haldin þetta árið og því er Tónkvíslin eina söngkeppni framhaldsskólanna sem sýnd er í sjónvarpi í ár. Sýningin verður í beinni útsendingu á N4, á morgun, laugardagskvöld kl. 19.30 og fer fram í íþróttahúsinu á Laugum þar sem nemendur eru nú í óða önn að breyta íþróttahúsi í tónleikahöll.

Nemendur sjá alfarið um allan undirbúning og framkvæmd Tónkvíslarinnar í umsjá Hönnu Sigrúnar Helgadóttur, kennara sem sér m.a. um félagsmál nemenda. Hljómsveitina skipar eingöngu nemendur og hefur Guðjón Jónsson, fyrrverandi nemandi Framhaldsskólans á Laugum séð um æfingar í vetur þar sem það tekur sinn tíma að æfa yfir 20 lög. Á haustönn hófst undirbúningur þar sem nemendur skráðu sig í hópa og þar má helst nefna smíðahóp, tæknihóp, förðunarhóp og fleiri hópa í umsjá framkvæmdastjórnar Tónkvíslar sem skipað er fjölda nemenda. Framkvæmdastjórn hefur fundað vikulega og metið stöðuna hverju sinni, þar sem fjáröflun og annað fyrirkomulag hefur verið til umræðu. Nú á vorönn hefur vinna þeirra aukist eftir því sem nær dregur þessum góða atburði sem er í raun svo magnaður að það á eiginlega ekki að vera hægt að halda þetta þar sem þetta er stór viðburður sem þarf mikilla skipulagningar við.

Fyrirtæki og aðrir aðilar hafa verið dyggir stuðningsmenn með því að leggja sitt af mörkum við að styrkja þessa keppni. Við njótum einnig aðstoðar tæknimanna frá Exton sem hafa víðtæka reynslu af uppsetningu sýninga og þeim fylgja því hlaðnir vagnar með upphengibúnað fyrir hljóð og ljós.  Auk þeirra njótum við aðstoðar Hlyns frá RÚV á Akureyri sem hefur aðstoðað við uppsetningu á tækjabúnaði í samvinnu við nemendur undanfarin ár og þökkum við öllum þessum aðilum kærlega fyrir þeirra framlag.

Keppendur í ár koma frá nokkrum grunnskólum í nærumhverfi, 10 keppendur frá Framhaldsskólanum á Laugum og einn keppandi frá Framhaldsskólanum á Húsavík en í haust var nemendum frá Húsavík boðið að senda þátttakendur í keppnina. Lögin eru fjölbreytt og að sjálfsögðu fáum við skemmtikraft eins og venja hefur verið undanfarin ár og í þetta sinn er það tónlistarmaðurinn Jón Jónsson sem mun syngja fyrir gesti.

Í dag fara fram söngæfingar þar sem 21 keppandi mun stíga á svið. Við óskum nemendum góðs gengis í keppninni sem fram fer annað kvöld og um leið óskum við nemendum Framhaldsskólans á Laugum til hamingju með enn eina stórstýninguna sem ekki er ofsögum sagt ef vitnað er í orð Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, tónlistarsjóra. Hann var dómari sýningarinnar í fyrra þar sem hann sagði m.a:  „…að öll umgjörð Tónkvíslarinnar hefði verið mjög metnaðarfull og ef eitthvað er, þá metnaðarfyllri en söngvakeppni sjónvarpsins… og kynnarar hefður verið skemmtilegri en á söngvakeppni sjónvarpsins og báru virðingu fyrir viðfangsefninu…og það kom mér alveg í opna skjöldu hve góð söngatriði komu fram“.

Nú er aðeins einn dagur í sýningu og nemendur skólans hafa sameinað krafta sína í að leggja mikla vinnu við undirbúning hátíðarinnar og því mega gestir búast við keppni sem gefur hinum fyrri ekkert eftir.  Verið velkomin á Tónkvísl Framhaldsskólans á Laugum annað kvöld kl. 19.30.

 

 

3 dagar í Tónkvísl

Í dag, miðvikudag er undirbúningur Tónkvíslar, sem fram fer í íþróttahúsinu á Laugum, komin í fullan gang þar sem einungis þrír dagar eru til stefnu. Margir nemendur lögðu því námsbækur til hliðar í morgun og viðtekur feikimikið verknám, að setja upp tónlistarveislu sem fram fer nk. laugardagskvöld kl. 19.30. Nemendur munu vinna hörðum höndum næstu daga við tæknimál, smíðavinnu, undirbúning keppenda, hljómsveitaræfingar og allt sem til þarf til að gera þessa hátið sem veglegasta.

Nú er svo sannarlega farið að styttast í þetta!Endilega kauptu þér miða í forsölu á tonkvislin@laugar.isATH. 500 kr afsláttur er af seldum miðum í forsölu!#Tonkvislin

Posted by Tónkvíslin on Wednesday, February 15, 2017

Þorrablót og félagsvist

Gestir á þorrablótinu að syngja

Nemendafélag Framhaldsskólans á Laugum í samvinnu við mötuneyti skólans hélt veglegt þorrablót í gærkvöldi þar sem nemendur, kennarar og starfsfólk mættu prúðbúin í nýuppgerðan malsal að blóta þorra. Borðhald hófst kl. 18.00 þar sem formaður skemmtinefndar, Hákon Breki Harðarson bauð alla velkomna. Samkoman hófst með því að sungin voru lög áður en gengið var að trogum með niðursneiddum þorramat af bestu gerð. Að loknu borðhaldi voru skemmtiatriði í boði nemenda; myndband þar sem nemendur slógu á létta strengi og gerðu óspart grín. Einnig voru leikir þar sem nemendur og starfsfólk tóku virkan þátt og hlutu mikið lof fyrir skemmtilega keppni og ekki síður var vel fylgst með keppnisskapi skólameistara sem fór á kostum.

Vinningshafa í félagsvist

 

Þessu þorrablóti lauk með að starfsmannanefndin „Gleðigjafarnir“ stóðu fyrir því að nemendur og starfsfólk spiluðu félagsvist. Um kl. 22.00 þegar félagsvist lauk voru verðlaun veitt fyrir þrjú efstu sætin meðal karla og kvenna.  Þriðja sætið kom í hlut Þórunnar Sigtryggsdóttur og Arnars Freys Ólafssonar. Annað sætið hlutu Klara Rún Birgisdóttir og Ólafur Ingi Kárason. Sigurvegarar voru þau Ragna Heiðbjört Þórisdóttir og Eyþór Kári Ingólfsson. Að þessu loknu fengu nemendur svo kvöldkaffi að venju.