Minnum á jöfnunarstyrkinn!

Viljum minna á að umsóknarfrestur vorannar 2022 er til og með 15. febrúar n.k. ef námsmaður ætlar að fá fullan námsstyrk. Ef námsmaður sækir um eftir 15. febrúar að þá skerðist styrkurinn um 15%.
Jöfnunarstyrkur (áður dreifbýlisstyrkur) er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu. Fjarnám er ekki styrkhæft. Dreifnám er aðeins styrkhæft ef nemendur þurfa að koma í skólann a.m.k. 50% af dagafjölda nemenda sem stunda dagsskóla. 

Nánari upplýsingar má finna á hér 

Skólastarfið í vikunni

Í dag hófst skólastarf á ný eftir erfiða daga. Nemendur byrjuðu daginn á skólafundi með Bjössa skólameistara klukkan 9:15 í morgun, þar sem farið var yfir skipulag næstu daga.
Við gerum ráð fyrir því að skólastarf verði með eins hefðbundnum hætti og aðstæður leyfa.
Við fáum áfram utanaðkomandi aðstoð og leggjum mikla áherslu á samveru eftir að skóladegi lýkur í samvinnu við nemendafélagið.

Sorgarfréttir frá Laugaskóla

Sá hörmulegi atburður átti sér stað þann 2. febrúar sl. að nemandi okkar varð fyrir bíl og lést. Við erum öll harmi slegin vegna málsins og syrgjum góðan félaga og vin.
Við höfum fengið góðan stuðning frá öllu skólasamfélaginu á Íslandi og hefur Rauði krossinn auk námsráðgjafa, sálfræðinga, lækna og hjúkrunarfræðinga séð um áfallahjálp fyrir nemendur og starfsmenn. Séra Þorgrímur, sóknarprestur á Grenjaðarstað, hefur haldið kyrrðar- og bænastundir fyrir okkur.
Neyðarstjórn skólans hefur verið virkjuð. Við viljum leggja áherslu á að nemendur og starfsmenn nýti sér þá þjónustu sem er í boði innan veggja skólans.
Við þökkum fyrir fallegar kveðjur til skólans, hlýhug og aðstoð sem okkur hefur borist. Við sendum fjölskyldu hins látna okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Nýtt ár og undirbúningur fyrir Gettu betur !

Fyrsti skóladagur ársins er genginn í garð og nemendur komnir í gírinn eftir gott jólafrí. Vegna stöðu Covid faraldursins höfum við þurft að herða sóttvarnarreglur í skólanum, en til dæmis báðum við nemendur um að taka hraðpróf áður en þau kæmu í skólann, ásamt því að bera grímu þar sem ekki er hægt að passa upp á eins metra fjarlægð.

Við vonum að þessar reglur hafi ekki mjög truflandi áhrif á okkar góða skóla og félagslíf nemenda. 

Við hvetjum alla til að fylgjast með okkar skóla keppa í Gettu Betur í kvöld, kl. 19:00, á streymi á RÚV.is. Þetta er fyrsta umferðin í keppninni í ár en við keppum í kvöld á móti Framhaldsskólanum í Breiðholti. Okkar lið samanstendur af Hrólfi Jóni Péturssyni, Nikolu Maríu Halldórsdóttur, Ólöfu Jónsdóttur, Guðnýju Ölmu Haraldsdóttur (varamanni) og Hilmari Erni Sævarssyni (þjálfara og varamanni)

Við óskum þeim góðs gengis í kvöld! 

 

Jólastemning í Laugaskóla

Jólastemningin er svo sannarlega komin í Laugaskóla. Nemendur föndruðu saman jólaskraut í vikunni, ásamt því að taka þátt í undirskriftasöfnun Amnesty International.

Í gær, fimmtudag, kom Bjarney frá Aflinu á Akureyri og hélt fyrirlestur fyrir nemendur og starfsmenn. Aflið er samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Hægt er hafa samband við Aflið með því að senda póst á aflidakureyri@gmail.com, en allar upplýsingar um starfsemina má finna á heimasíðu þeirra.

Nóg er að gera hjá nemendum, en þeir eru á fullu að klára síðustu metrana á önninni. Kennsla verður út næstu viku, fram að hádegi, föstudaginn 17. desember. 

ÍSLE3VÍ05 – Vesturferðir Íslendinga  

Þessa haustönnina fór af stað nýr áfangi í íslensku þar sem nemendur kynnast Vesturferðum Íslendinga með áherslu á vesturíslensku. Nemendur kynnast samfélagsbreytingum sem áttu sér stað og hvað varð um íslenskuna í Norður-Ameríku hjá vesturförunum. Málnotkun og orðaforði  íslenskunnar eru til umfjöllunar og hvernig hún þróaðist án tengsla við íslenskuna sem töluð var á Íslandi. Nemendur munu vinna saman að upplýsingaöflun og velja efni til að gera skapandi verkefni auk þess sem við erum í góðum tengslum við einstaklinga í Gimli. Til að mynda bauð New Iceland Heritage Museum nemendum á safnið með aðstoð netmiðla.
                Um þessar mundir eru nemendur að baka sjö laga vínartertu sem var vinsæl á seinni hluta 19. aldar og barst með Íslendingum vestur um haf og er þjóðlegt kaffibrauð hjá Vestur-Íslendingum. Í gærkvöldi var fyrsta vínartertan bökuð í tilefni þesss að 145 ár eru frá því að fyrsti Íslendingurinn fæddist í Kanada, þann 21. október 1875, daginn eftir að þeir numu land. Framundan eru skemmtileg verkefni s.s. hljóðvarp, myndbönd, leikrit, umræður o.fl. 

– Ragna Þórisdóttir

Reglubundin heimsókn frá lögreglunni

Í gær fengum við heimsókn frá lögreglunni á Akureyri og Húsavík ásamt lögregluhundinum Kæju. Nemendum og kennurum var safnað saman í íþróttahúsinu á meðan leitinni stóð. Nemendur sýndu einstaklega mikla þolinmæði á meðan leitinni stóð og fóru í ýmsa boltaleiki til að drepa tímann. Á meðan leitaði Kæja í húsnæði skólans, en það var nauðsynlegt að hafa nemendur og kennara í annarri byggingu til þess að tíkin yrði ekki fyrir truflun.

Kæja stillir sér upp við lögreglubílinn eftir leit dagsins

Við erum ákaflega stolt af okkar nemendum, en þau sýndu góðan samstarfsvilja og voru þolinmóð á meðan leitinni stóð. Það er líka einstaklega ánægjulegt að segja frá því að Kæja fann ekki neitt, sem var eins og við bjuggumst við. Svona heimsóknir eru hluti af forvörnum skólans og eru mikilvægur liður í að halda skólanum á þeim stað sem við viljum hafa hann. Heimsókn af þessu tagi er mikilvæg og við reynum að fá hana með reglulegu millibili.

Skólareglur segja til um að öll neysla vímuvaldandi efna er bönnuð á lóð skólans, í húsum hans og í ferðalögum á hans vegum og er þeim reglum sé fylgt vel eftir.

 

Laugaskóli hlaut jafnlaunamerki Jafnréttisstofu

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna það að Framhaldsskólinn á Laugum stóðst jafnlaunavottun hjá Versa vottun og hefur núna leyfi til að nota jafnlaunamerki Jafnréttisstofu næstu þrjú árin, eða frá 10. september 2020 til 7. september 2023. Óútskýrður kynbundinn launamunur mældist 0,57%, konum í vil. 
Í reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja kemur m.a. fram: “Merkinu er ætlað að vera gæðastimpill og hluti af ímynd og orðspori fyrirtækja og stofnana. Merkið staðfestir að þau hafi komið sér upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.”