Notaleg jólastund – föndur og undirskriftir

Í gær, fimmtudaginn 4. desember, bauð Freydís Anna upp á jólaföndur í matsal skólans. Það er alltaf ánægjulegt að brjóta upp skóladaginn og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. Allskonar fígúrur urðu til í höndum nemenda og starfsmanna, en sumir létu sér nægja að skreyta piparkökur.

Einnig komu nemendur saman þar sem þeir gátu skrifað undir ýmis mál, þar sem brotið er á mannréttindum fólks út um allan heim, en það kallast “Þitt nafn bjargar lífi” og er á vegum Íslandsdeildar Amnesty International.

 

Þitt nafn bjargar lífi

Þitt nafn bjargar lífi (áður Bréf til bjargar lífi). Þá skrifar fjöldi fólks nafn sitt á bréf til stjórn­valda sem brjóta mann­rétt­indi og krefst rétt­lætis fyrir þolendur. Samtímis munu hundruð þúsunda einstak­linga víða um heim gera slíkt hið sama“

Í fyrra tókum við þátt og fórum með sigur af hólmi í flokknum „flestar undirskriftir miðað við nemendafjölda“ og fengum við titilinn „Mannréttindaframhaldsskóli ársins 2018“ Að sjálfsögðu munum við taka þátt í ár en málin sem tekin eru fyrir núna eru 10 talsins og snúa öll að mannréttindabrotum gegn ungu fólki á aldrinum 14-25 ára. Mörg þeirra mjög átakanleg og erfitt fyrir okkur að setja okkur í spor þessa fólks. Hér fyrir neðan eru 3 mismunandi sögur af mannréttindabrotum á ungu fólki. 

 

Yasaman Aryani er frá Íran og hlaut 16 ára fangelsisdóm fyrir að mótmæla löggjöf um höfuðslæðu í heimalandi sínu.
Yasaman og móðir hennar gengu með hárið óhulið um lestarvagn einungis ætluðum konum og dreifðu hvítum blómum meðal farþega. Þessi viðburður náðist á myndband og fór á flug á internetinu í mars 2019 og út frá því hlaut Yasaman þennan þunga dóm!

 

Mál Söruh Mardini (24 ára) og Seán Binder (25 ára) eiga yfir höfði sér 25 ára fangelsisdóm fyrir að aðstoða flóttafólk í háska við strendur Grikklands.

Magai Matiop Ngong var aðeins 15 ára gamall og dæmdur til dauða í Suður-Súdan. Hann fékk ekki lögfræðing sér til aðstoðar, og nú í dag er hann 17 ára gamall og er á dauðadeild í Juba Central-fangelsinu, þar sem hann heldur í vonina um að áfrýjun dauðadómsins nái fram að ganga og hann geti haldið skólagöngu sinni áfram.

Hægt er að lesa um öll þessi mál sem verða tekin fyrin fyrir hér 

Í byrjun desember munum við í Framhaldsskólanum á Laugum taka þátt. Eins og í fyrra, munum við eiga notalega stund á bókasafninu. Við hvetjum bæði nemendur og starfsfólk til þess að koma upp á bókasafn, lesa sögurnar og skrifa undir. Keppnin stendur frá 25. október til 31. desember 2019.

 

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur

Ráðstefnan „Hvernig skapa ég mína eigin framtíð“ fór fram á föstudaginn, en henni var streymt til grunnskóla- og framhaldsskólanema. Þessi ráðstefna fjallaði um það hvaða störf verða til í framtíðinni og möguleika tækni til fjarvinnu. Þetta var spennandi ráðstefna og gaman fyrir okkur að geta tekið þátt í henni.

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur á föstudaginn. Nemendur og starfsfólk mættu í Þróttó þar sem þétt og skemmtileg dagskrá var í boði nemenda. Nemendurnir kynntu vefinn Samróm þar sem fólk er hvatt til þess að gefa raddsýni. Nemendur fræddu salinn um mikilvægi íslenskrar tungu, framtíð íslenskunnar og sungu að lokum lagið Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson. Þessi dagskrá var lokaverkefni í áfanganum „Íslenska í rafrænu samfélagi“, sem er kenndur af Rögnu. 

Hátíðardagskránni lauk svo með hátíðarhádegisverði í boði mötuneytisins, hamborgarhrygg með sykurhúðuðum kartöflum og skyrtertu í eftirmat. 

Sundbíó á Laugum helgina 16.-17. nóvember

Helgina 16.-17. nóvember mun E-MAX bjóða upp á sundbíó í sundlauginni á Laugum í annað sinn. Tvær myndir verða sýndar að þessu sinni, ein hvort kvöld. Eins og áður opnar húsið 19:30 og sýning hefst klukkan 20:00. Athugið að ekki verður tekið við kortagreiðslum.

Laugardaginn 16. nóvember 2019
Home Alone

Sunnudaginn 17. nóvember 2019
Jumanji: Welcome to the jungle

Verðskrá:
Fullorðnir 1200 kr
Börn (≤12 ára) 600 kr
Mæti fólk bæði kvöldin fæst 50% afsláttur á seinni sýningu

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast í síma 856-5834 (Birgitta) eða 847-2442 (Eyþór)

 

Góðgerðarmót VMA

Þann 7. nóvember síðastliðinn bauð VMA okkur í Framhaldsskólanum á Laugum á góðgerðarmót á Akureyri.

Nemendur Laugaskóla lögðu af stað fyrir hádegi með rútu til Akureyrar þar sem keppt var í blaki, fótbolta, bandý, badmintoni, hreystibraut, skotbolta og skottaleik. Allur ágóði rann til Barna- og unglingageðdeildar SAK á Akureyri. 

Mótið gekk mjög vel og var skemmtilegt. Við þökkum VMA kærlega fyrir að bjóða okkur að vera með í þessum degi.

Fleiri myndir frá mótinu eru að finna hér 

Útskriftarferð til Flórída

Þann 19. október s.l. hélt vaskur hópur tilvonandi útskriftarnemenda í sína útskriftarferð. Fór hópurinn til Orlando í Flórída ásamt tveimur starfsmönnum, hjónunum Hnikari íþróttakennara og Maríu námsráðgjafa, og dvaldi hópurinn í húsi rétt utan Orlando-borgar í eina viku. Ýmislegt skemmtilegt var brallað í ferðinni t.d. var farið á körfuboltaleik í NBA deildinni, keppt í gokart kappakstri, farið í vatnsrennibrautagarð og í skólakynningu.

Toppurinn á ferðinni var þó án efa heimsókn í Universal Studios skemmtigarðinn þar sem hópurinn rölti um Diagon Alley í heimi Harry Potter, barðist við geimverur í 3D leiktækjum, prófaði alla helstu rússíbanana á svæðinu og ýmislegt fleira.

Gaman var einnig að prófa spennandi veitingastaði eins og Cheesecake factory, The Red Lobster og The Waffel House svo einhverjir séu nefndir, kíkja í bíó í IMax kvikmyndahúsi og bara liggja í sólbaði á pallinum og láta sér líða vel. Einhver tími var síðan tekinn í búðarráp eins og lög gera ráð fyrir þegar Íslendingar fara til útlanda og einhverjir prófuðu golfvöllinn í nágrenni heimilisins. 

-María Jónsdóttir

Vetrarfrí og uppbrot

Skólahald hefur verið með aðeins breyttu sniði síðastliðna viku.

Nemendur fóru í vetrarfrí 18. október og mættu endurnærðir aftur á vistarnar 22. október. Það er nauðsynlegt að brjóta upp á hið daglega amstur og fá frí frá hefðbundnum skóladegi. Á miðvikudaginn sl. hófst svokallað Uppbrot, en þá fáum við námskeiðshaldara til þess að vera með hin ýmsu námskeið sem nemendur velja. Í þetta sinnið gátu nemendur valið um fjögur námskeið; Íþróttir og útivist, mannréttindamál, hryllingsmyndir og Morfís.

Uppbrotinu líkur í dag, 25. október og eftir helgi tekur rútínan og hefðbundið skólahald við að nýju. Það má með sanni segja að veturinn sé kominn, en hér á Laugum er allt á kafi í snjó.

Samstarfsverkefni FL við skóla frá Tékklandi

Framhaldsskólinn á Laugum vinnur nú að alþjóðlegu samstarfsverkefni sem styrkt er af Erasmus+ styrkáætlun ESB. Skólinn er í samstarfi við skóla frá Tékklandi og heitir verkefnið „Hiking in Europe“ og snýst um útivist og gönguferðir á fjöllum og stígum. Verkefnastjórar verkefnisins eru þau Bjarney Guðrún og Hnikarr.

Verkefnið hófst í haust með heimsókn þriggja kennara frá Tékklandi hingað í lands. Tilgangur heimsóknarinnar var að undirbúa heimsókn þeirra sem ráðgerð er haustið 2020 þar sem þessir þrír kennara koma með tíu nemendur til að vinna að verkefnum með nemendum Laugaskóla. Farið var og skoðað Ásbyrgi, Hljóðakletta, Dettifoss og Jarðböðin við Mývatn. Einnig var tekin dagsferð uppí Öskju með viðkomu í Herðubreiðarlindum, Dreka og Holuhrauni. Áætlunin er að nemendurnir muni einnig heimsækja þessa staði.

Verkefnastjórarnir munu síðan fara í svipaða kynningarferð til Tékklands næsta vor til að undirbúa og skipuleggja heimsókn með nemendur til Tékklands vorið 2021.

Þetta er í fyrsta skiptið sem FL tekur þátt í verkefni á vegum Erasmus+.

Bíó í sundlauginni á Laugum

Síðastliðinn laugardag, 14. september, var myndin Back to the Future sýnd í sundlauginni á Laugum á tæplega 40 fermetra tjaldi. Systkinin Eyþór Alexander og Birgitta Eva skipulögðu viðburðinn. Að sögn Eyþórs gekk fyrsta sýningin nokkuð vel. „Þetta tókst mjög vel og allt gekk upp en það hefðu mátt koma aðeins fleiri“. Fyrirtækið E-max stóð fyrir þessari bíósýningu, en það eru Eyþór Alexander og Ragnar Yngvi sem reka það saman.

Eyþór Alexander, annar eiganda E-max

„Við sjáum um miðasölu á netinu og erum með hljóðkerfaleigu. Leigjum öðrum hljóðkerfi fyrir viðburði og svo komum við sjálfir með hljóðkerfi og setjum það upp fyrir viðburðinn“, segir Eyþór.

Aðspurður hvort það verði fleiri sýningar í vetur segir Eyþór að það muni koma í ljós, allir viðburðir á þeirra vegum verða auglýstir fyrirfram.

Allar frekari upplýsingar um E-max má finna á www.e-max.is

 

 

Haustferð til Vopnafjarðar

Fyrsti hefðbundni skóladagur vetrarins var í gær, mánudaginn 2. september. Það hefur verið stíf dagskrá síðastliðna daga, en nemendur fóru í haustferð til Vopnafjarðar á föstudaginn, þar sem gist var í eina nótt. Áður en haldið var í ferðalagið var búið að skipta nemendum niður í nokkur lið, og áttu liðin að leysa allskonar þrautir og fá stig fyrir, á leiðinni til Vopnafjarðar og aftur heim. Tvær rútur lögðu af stað frá bílaplani skólans seinnipart föstudags og leiðinni var haldið beint til Húsavíkur þar sem nemendur fengu tækifæri til að kaupa skólabækur fyrir veturinn. Næsta stopp var Ásbyrgi þar sem liðin nældu sér í stig, næst var stoppað á Þórshöfn, og varð sú ferð svo fræg að við komumst á Facebook síðu sjoppunnar í bænum.

Þegar við vorum komin á áfangastað var öllu mokað út úr rútunum og grillað ofan í mannskapinn. Þeir sem vildu fóru í miðnætursund, en aðrir voru eftir í íþróttahúsinu og fóru í leiki og annað hópefli. Nemendur fengu góðan tíma til að athafna sig morguninn eftir, en við lögðum ekki af stað frá Vopnafirði fyrr en uppúr 14. Leikirnir héldu áfram, og byrjuðum við á því að fara í Sandvík þar sem liðin kepptu í kastalagerð og síðasta stoppið var hjá Dettifossi.