Nýtt ár og undirbúningur fyrir Gettu betur !

Fyrsti skóladagur ársins er genginn í garð og nemendur komnir í gírinn eftir gott jólafrí. Vegna stöðu Covid faraldursins höfum við þurft að herða sóttvarnarreglur í skólanum, en til dæmis báðum við nemendur um að taka hraðpróf áður en þau kæmu í skólann, ásamt því að bera grímu þar sem ekki er hægt að passa upp á eins metra fjarlægð.

Við vonum að þessar reglur hafi ekki mjög truflandi áhrif á okkar góða skóla og félagslíf nemenda. 

Við hvetjum alla til að fylgjast með okkar skóla keppa í Gettu Betur í kvöld, kl. 19:00, á streymi á RÚV.is. Þetta er fyrsta umferðin í keppninni í ár en við keppum í kvöld á móti Framhaldsskólanum í Breiðholti. Okkar lið samanstendur af Hrólfi Jóni Péturssyni, Nikolu Maríu Halldórsdóttur, Ólöfu Jónsdóttur, Guðnýju Ölmu Haraldsdóttur (varamanni) og Hilmari Erni Sævarssyni (þjálfara og varamanni)

Við óskum þeim góðs gengis í kvöld! 

 

Jólastemning í Laugaskóla

Jólastemningin er svo sannarlega komin í Laugaskóla. Nemendur föndruðu saman jólaskraut í vikunni, ásamt því að taka þátt í undirskriftasöfnun Amnesty International.

Í gær, fimmtudag, kom Bjarney frá Aflinu á Akureyri og hélt fyrirlestur fyrir nemendur og starfsmenn. Aflið er samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Hægt er hafa samband við Aflið með því að senda póst á aflidakureyri@gmail.com, en allar upplýsingar um starfsemina má finna á heimasíðu þeirra.

Nóg er að gera hjá nemendum, en þeir eru á fullu að klára síðustu metrana á önninni. Kennsla verður út næstu viku, fram að hádegi, föstudaginn 17. desember. 

ÍSLE3VÍ05 – Vesturferðir Íslendinga  

Þessa haustönnina fór af stað nýr áfangi í íslensku þar sem nemendur kynnast Vesturferðum Íslendinga með áherslu á vesturíslensku. Nemendur kynnast samfélagsbreytingum sem áttu sér stað og hvað varð um íslenskuna í Norður-Ameríku hjá vesturförunum. Málnotkun og orðaforði  íslenskunnar eru til umfjöllunar og hvernig hún þróaðist án tengsla við íslenskuna sem töluð var á Íslandi. Nemendur munu vinna saman að upplýsingaöflun og velja efni til að gera skapandi verkefni auk þess sem við erum í góðum tengslum við einstaklinga í Gimli. Til að mynda bauð New Iceland Heritage Museum nemendum á safnið með aðstoð netmiðla.
                Um þessar mundir eru nemendur að baka sjö laga vínartertu sem var vinsæl á seinni hluta 19. aldar og barst með Íslendingum vestur um haf og er þjóðlegt kaffibrauð hjá Vestur-Íslendingum. Í gærkvöldi var fyrsta vínartertan bökuð í tilefni þesss að 145 ár eru frá því að fyrsti Íslendingurinn fæddist í Kanada, þann 21. október 1875, daginn eftir að þeir numu land. Framundan eru skemmtileg verkefni s.s. hljóðvarp, myndbönd, leikrit, umræður o.fl. 

– Ragna Þórisdóttir

Skólahald á Covid tímum

Nú höfum við reynt eftir bestu getu að halda eðlilegu skólahaldi gangandi. Við höfum auðvitað þurft að fylgja sóttvarnarreglum eins og allir aðrir skólar á landinu. Við þreytumst ekki á því að hreykja okkur af nemendahópnum okkar hvenær sem við getum. Þau hafa þurft að breyta sínu daglega lífi og fylgja reglum sem breytast hratt og eru nokkuð ófyrirsjáanlegar. Það er eitthvað sem fullorðnu fólki þykir erfitt að fara eftir, hvað þá tæplega 100 ungmenni í blóma lífsins, saman komin á heimavist.

Það sem við höfum meðal annars gert til að fylgja sóttvarnarreglum skiptum við nemendahópnum upp í fjóra hópa. Kennsla fer að miklu leyti fram í hóptímum, og nota kennarar ýmsar aðferðir við að kenna fagtíma. Þegar nemendahóparnir eiga erindi inn í Gamla skóla nota þeir hvor sinn innganginn og þurfa nemendur alltaf að vera í sínum hópi. Einnig þurfa nemendur að setja upp grímu ef þau fara inn fyrir metrann.

Þessar hertu reglur hafa líka áhrif á íþróttastarf innan skólans, en íþróttirnar eru skipulagðar af Hnikarri íþróttakennara. Til dæmis er líkamsræktin einungis opin í íþróttatímum hjá Hnikarri, og því geta nemendur ekki mætt í ræktina utan íþróttatíma. Matartímar eru einnig með óhefðbundnu sniði, en nú er hver matartími fjórskiptur og borða því nemendur alltaf mat í sínum hópi, bannað er að færa borð eða stóla til í matsalnum og þurfa nemendur að halda metrabili.

Þetta hefur eðli málsins samkvæmt líka áhrif á skipulagt félagslíf innan skólans og höfum við t.d þurft að fresta Laugadraumnum sem var kominn af stað, þangað til betur stendur á.
Einnig gilda þær reglur að nemendur sem fara á höfuðborgarsvæðið, á meðan ástandið er eins og það er, ekki komið aftur í Laugar fyrr en ástandið batnar. Þá fara þeir nemendur í nám utan skóla, þangað til við getum tekið við þeim aftur. Þess vegna hvetjum við nemendur eindregið til að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Eins og alltaf átti vetrarfríið að hefjast í næstu viku en okkur þótti ekki skynsamlegt að nemendur og starfsfólk í frí í miðjum Covid-faraldri.

Nú höldum við bara áfram veginn og eigum vetrarfríið inni þegar við sjáum betur hvernig ástandið er í samfélaginu.

 

Reglubundin heimsókn frá lögreglunni

Í gær fengum við heimsókn frá lögreglunni á Akureyri og Húsavík ásamt lögregluhundinum Kæju. Nemendum og kennurum var safnað saman í íþróttahúsinu á meðan leitinni stóð. Nemendur sýndu einstaklega mikla þolinmæði á meðan leitinni stóð og fóru í ýmsa boltaleiki til að drepa tímann. Á meðan leitaði Kæja í húsnæði skólans, en það var nauðsynlegt að hafa nemendur og kennara í annarri byggingu til þess að tíkin yrði ekki fyrir truflun.

Kæja stillir sér upp við lögreglubílinn eftir leit dagsins

Við erum ákaflega stolt af okkar nemendum, en þau sýndu góðan samstarfsvilja og voru þolinmóð á meðan leitinni stóð. Það er líka einstaklega ánægjulegt að segja frá því að Kæja fann ekki neitt, sem var eins og við bjuggumst við. Svona heimsóknir eru hluti af forvörnum skólans og eru mikilvægur liður í að halda skólanum á þeim stað sem við viljum hafa hann. Heimsókn af þessu tagi er mikilvæg og við reynum að fá hana með reglulegu millibili.

Skólareglur segja til um að öll neysla vímuvaldandi efna er bönnuð á lóð skólans, í húsum hans og í ferðalögum á hans vegum og er þeim reglum sé fylgt vel eftir.

 

Laugaskóli hlaut jafnlaunamerki Jafnréttisstofu

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna það að Framhaldsskólinn á Laugum stóðst jafnlaunavottun hjá Versa vottun og hefur núna leyfi til að nota jafnlaunamerki Jafnréttisstofu næstu þrjú árin, eða frá 10. september 2020 til 7. september 2023. Óútskýrður kynbundinn launamunur mældist 0,57%, konum í vil. 
Í reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja kemur m.a. fram: “Merkinu er ætlað að vera gæðastimpill og hluti af ímynd og orðspori fyrirtækja og stofnana. Merkið staðfestir að þau hafi komið sér upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.”

Heimsókn forsætisráðherra í Laugaskóla

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Laugaskóla í gær ásamt aðstoðarkonu sinni Bergþóru Benediktsdóttur. Þær voru á ferðalagi um Norðurland og nýttu tækifærið og litu við hjá okkur. Það var virkilega ánægjulegt að fá þær í heimsókn og fá að kynna fyrir þeim flotta starfið sem fer fram í Laugaskóla. Þær snæddu hádegismat með okkur og spjölluðu við nemendur og starfsfólk. 

Brunnur

Skólasetningin fór fram síðastliðinn sunnudag, 30. ágúst, í íþróttahúsinu á Laugum. Vegna Covid þurftum við að breyta hinni hefðbundnu skólasetningu og voru aðeins nýnemar ásamt einum aðstandanda viðstaddir. Eftir skólasetningu bauð Kristján kokkur upp á grillaða hamborgara. 

Brunnur hófst svo formlega á mánudaginn og má segja að þá hafi alvaran tekið við fyrir nýju nemendurna, sem eru að taka sín fyrstu skref í framhaldsskóla. Dagskráin fyrir Brunn er full af skemmtilegum viðburðum og við vonum að þessi vika verði gott tækifæri fyrir nýnema til þess að kynnast sín á milli, en í næstu viku mæta eldri nemendur í skólann. 

Í dag fá nýnemar meðal annars kynningu á markmiðasetningu með “Vision board” og eftir hádegi verður ratleikur um svæðið á Laugum. Á morgun verður farið í nýnemaferð. Á fimmtudaginn og föstudaginn byrja nemendur að mæta í tíma samkvæmt stundartöflu.

Hallur áfangastjóri (og ljóðskáld svo fátt eitt sé nefnt) heldur úti vefsíðunni Bragfræðivefur Halls og samdi hann ljóð um nýnemaferðina og birti skemmtilegar myndir frá deginum. Hér má skoða það.

Styttist í að skólinn hefji starf að nýju

Laugaskóli er heimavistarskóli með vinnustofukerfi og okkar sérstaða felst í nánd og persónulegri aðstoð. Slíkt er erfiðara að veita í fjarnámi og því viljum við reyna að halda úti sem hefðbundnustu skólastarfi en samt þannig að við gætum fyllsta öryggis og uppfyllum allar reglur

Skólasetningin verður 30. ágúst klukkan 18:00 í íþróttahúsinu á Laugum.

  • Allir sem eru nýir nemendur í Laugaskóla eiga að mæta. (Einnig mæta þeir nemendur sem voru á Almennri braut sl. vetur en eru að hefja nám á stúdentsbrautum núna á haustönninni).
  • Eldri nemar koma viku seinna (6. september, með fyrirvara um breytingar)
  • Skólasetningunni verður streymt á Facebooksíðu Laugaskóla (facebook.com/laugaskoli)
  • Þegar forráðamenn fylgja nemendum til skólasetningar biðjum við um að einungis einn fari með unglingi sínum inn í hús skólans (herbergi, íþróttahús o.s.frv.) og menn virði sóttvarnir og fjarlægðartakmörk.

Þeir nemendur sem voru hjá okkur á stúdentsbrautum síðastliðinn vetur og þeir sem voru á Almennri braut síðastliðinn vetur og halda áfram á henni eiga EKKI að koma í skólann eða til skólasetningar og eiga EKKI að koma í heimsókn á vistirnar eða í skólann fyrstu vikuna.

Þeir eiga að koma til okkar viku seinna eða sunnudaginn 6. september. Ég vil þó biðja alla að fylgjast vel með því ef reglur verða rýmkaðar þá er líklegt að við fáum eldri nemendur til okkar fyrr og ég bið því alla að vera í startholunum.

Allir nemendur eiga að koma með andlitsgrímur og sótthreinsigel/spritt og handsápu til að hafa á herbergjum sínum. Enginn sem hefur flenslík einkenni (særindi í hálsi, höfuðverk o.s.frv.) á að koma og finni nemendur fyrir einkennum þegar þeir eru komnir í Laugar skulu þeir láta vita strax af því og halda sig á herbergjum sínum.

Einstaklingsbundnar smitvarnir (handþvottur, spritt og fjarlægðartakmörk) eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr til þess að geta haldið úti nokkuð hefðbundnu skólastarfi og eru í raun eina leið okkar sem þjóð til að halda veirunni í skefjum.