Áfram gakk!

Kæru nemendur, foreldrar og forráðamenn.

Við viljum minna á að þrátt fyrir að nemendur séu heima hjá sér þá heldur skólastarfið áfram.
Skólafulltrúi er venju samkvæmt í vinnu frá 8:30-12:30 og svarar í síma og tölvupóst. (464-6300 & gotta@laugar.is)

Þeir sem þurfa að ná í Maríu námsráðgjafa geta hringt í síma 464-6300, alla virka daga frá 8:30-12:30 og óskað eftir símatíma, sent tölvupóst á maria@laugar.is eða sent skilaboð í gegnum Teams.

Eins og við höfum áður nefnt er mikilvægt að nemendur haldi rútínu og sinni lærdómnum á vinnutíma, þ.e frá 9:10 – 15:30. Allar upplýsingar er varða námið koma inn á Moodle og/eða Teams og það er mikilvægt að nemendur fylgist vel með tilkynningum kennara.

Þrátt fyrir að nemendur geti ekki hitt kennara sína þá eru kennararnir við eins og á venjulegum skóladegi. Við hvetjum nemendur og foreldra/forráðamenn til þess að hafa samband við okkur hvort sem það eru fyrirspurnir varðandi námið eða einstök atriði.

Nemendur Laugaskóla standa frammi fyrir mikilli áskorun, hvað varðar ábyrgð og aga í námi og lífi, og nú er tíminn þar sem þið getið sýnt hvað raunverulega í ykkur býr. Við hjálpumst að við þetta og við hlökkum til að hitta ykkur að samkomubanni loknu.

 

Áríðandi tilkynning vegna COVID-19

Á blaðamannafundi sem haldinn var klukkan 11 í morgun tilkynnti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, að nú væri komið að því að setja á samkomubann og framhaldsskólum landsins verður lokað í 4 vikur vegna COVID-19. 

Það þýðir að skólastarf verður takmarkað hjá okkur frá og með mánudeginum 16. mars og næstu fjórar vikur. Bjössi skólastjóri kallaði nemendur og starfsfólk á fund kl 12 og fór yfir stöðuna hjá okkur.

  • Við létum nemendur vita að þeir þyrftu að fara heim til sín um helgina og munum við aðstoða þá ef þörf er á.
  • Nemendur eru komnir í fjarnám frá og með deginum í dag og kennarar munu hafa samband í gegnum kennsluvefi skólans.
  • Mikilvægt er að nemendur og forráðamenn fylgist vel með Innu, Moodle, tölvupósti og Teams. 
  • Nemendur eru beðnir um að ganga vel frá herbergjum sínum og muna eftir að taka með sér námsgögn.

Foreldar og forráðamenn fá sendar ítarlegri upplýsingar í tölvupósti. 

Rannsókn á smádýralífi við virkanir í Laxá í Þingeyjarsýslu

Guðmundur Smári

Í dag birtist grein eftir Guðmund Smára, raungreinakennara Laugaskóla, á vefnum Skólaþræðir.  Greinin fjallar um stórt verkefni nemenda á náttúruvísindabraut, en nemendur í áfanganum „Rannsóknarverkefni í Laxá“ hafa rannsakað smádýralíf við virkjanir í Laxá í Þingeyjarsveit síðastliðin tvö ár. Þessi rannsókn er virkilega spennandi og það er óhætt að segja að spennandi tímar séu framundan hjá nemendum náttúruvísindabrautar. Nemendurnir sem hafa staðið að þessari rannsókn munu fara á alþjóðlega ráðstefnu í júní nk. á vegum verkefnisins, til Flórída.

„ Á vorönn 2020 munu  nemendur sitja fimm eininga 4. þreps áfanga þar sem úrvinnsla á sýnunum verður kláruð og gögnin greind. Þá munu nemendur einnig skrifa vísindagrein, flytja fyrirlestur og útbúa veggspjald um verkefnið sem birt verður á ráðstefnu á vegum verkefnisins. Water is Life er alþjóðlegt verkefni þar sem yfir 30 framhaldsskólar frá öllum byggðum heimsálfum koma saman til að kynna verkefni sín og kynnast nemendum og verkefnum frá öðrum skólum. Öll eiga verkefnin sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um vatn, allt frá samfélagslegum og pólitískum áhrifum til þess hvernig vatn er undirstaða alls lífs sem við þekkjum. Framhaldsskólinn á Laugum er fyrsti og eini skólinn á Íslandi sem hefur tekið þátt í Water is Life verkefninu en fjórir nemendur ásamt verkefnastjóra munu fara til Flórída í júní 2020 til að taka þátt í ráðstefnu verkefnisins en annað hvert ár koma allir skólar saman til að kynna sín verkefni. Framhaldsskólinn á Laugum hefur einnig heimsótt skóla í Hollandi og Frakklandi sem eru þátttakendur í verkefninu til að kynnast þeirra verkefnum og skólum, en hollenski skólinn hefur líka sótt okkur hingað heim að Laugum.“ 

Kórónaveiran

Nú hefur ríkislögreglustjóri lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna sýkinga af völdum kórónaveiru, COVID-19, eins og fram kemur á vef Landlæknis. Þar kemur einnig fram að þetta neyðarstig hafi ekki teljandi áhrif á almenning og auk þess hefur ekki verið lagt á samkomubann.

Þar sem við erum heimavistarskóli og nemendur koma allstaðar að þá fylgjumst við vel með þróun mála. Það bendir ekkert til þess að veiran sé líklegri til að finnast í Laugaskóla heldur en annars staðar á landinu, en við munum greina frá því strax ásamt leiðbeiningum frá Almannavörnum og sóttvarnarlækni hvað skuli gera, ef hún greinist hér. Eins og annarsstaðar er líklegt að á næstu dögum/vikum muni einstaka nemendur/starfsmenn fara í sóttkví á meðan verið er að ganga úr skugga um hvort flenskueinkenni/veikindi séu COVID-19 eða eitthvað annað.

Við viljum enn og aftur minna á mikilvægi handþvottar og sprittunar. Við viljum hvetja nemendur og starfsfólk til þess að þvo sér vandlega um hendur með sápu áður en gengið er í matsalinn, og spritta hendur áður en þið fáið ykkur mat, glös og hnífapör, og strax þegar þið eruð búin að borða. Á vefsíðu Landlæknis má finna spurningar og svör við Kórónaveiruna.

Við reynum að láta faraldurinn trufla skólastarfið sem minnst en höfuð þó vaðið ávallt fyrir neðan okkur og tökum enga áhættu.

 

Tónkvíslarvika

Nú er undirbúningur fyrir Tónkvíslina í fullum gangi. Tónkvíslin fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Laugum, laugardaginn 22. febrúar næstkomandi. Framkvæmdarstjórn Tónkvíslarinnar skipuleggur keppnina, en stjórnin er skipuð af nemendum Laugaskóla. Auk þess var Arna Kristín ráðin verkefnastjóri Tónkvíslarinnar, en það er í hennar verkahring að sjá til þess að allt fari samkvæmt áætlun, ásamt því að vera hægri hönd framkvæmdarstjórans.

Mugison verður skemmtikraftur kvöldsins. Hann er mörgum kunnugur hér á Laugum, enda fyrrum nemandi Laugaskóla.

Tónkvíslin hefur verið haldin í 15 ár og vex með hverju árinu. Þetta brýtur svo sannarlega upp hið daglega amstur alls samfélagsins á Laugum. Vikan fyrir keppnina fer í að setja upp svið og allt sem því tilheyrir fyrir keppnina. Þessa viku falla allir tímar Íþróttamiðstöðvarinnar í íþróttasal niður, því það þarf meðal annars að leggja sérstök teppi á gólfið ásamt drapperingum, setja upp ljósabúnað, gera sviðið tilbúið, skreyta og allt sem þarf til að halda þennan veglega viðburð.

Síðastliðin ár hefur keppnin verið í beinni útsendingu á N4, en í ár verður hún ekki sýnd í beinni útsendingu. Í ár munu nemendur taka virkari þátt í öllu sem kemur að keppninni, og munu nemendur til dæmis sjá um að taka upp alla keppnina, en útsendingarbíll frá Kukl verður á staðnum með myndavélum og öllu tilheyrandi.

Formlegt skólahald verður með óbreyttu sniði til hádegis á morgun, miðvikudag. En allir nemendur skólans taka þátt með einum eða öðrum hætti, og fá einingar fyrir það.

Miðakaup á Tónkvíslina fara fram á Tix.is og hvetjum við alla til að kaupa sér miða. Húsið opnar kl. 18:30 og keppnin hefst kl. 19:30. Hægt er að fylgjast nánar með undirbúningnum á Facebook-síðu Tónkvíslarinnar

Þorrablót og félagsvist

Þorrablót fór fram í gær, fimmtudaginn 6. febrúar í matsal skólans. Góð mæting var frá nemendum, og stjórnaði Lúðvík samkomunni, sem og fjöldasöng með aðstoð Systu. Talsvert var lagt í skemmtiatriði nemenda, en þeir fluttu grínmyndband sem var gert af myndbandsfélaginu Hnetunni. Bjössi skólastjóri var með spurningakeppni, þar sem svörin voru annað hvort já eða nei. Bríet Guðný sigraði spurningakeppnina eftir harða keppni við Guðrúnu Gísla.

Að loknu borðhaldi var spiluð félagsvist á níu borðum, undir stjórn Kristjáns G og Rögnu. Spilað var hálft spjald (tvær umferðir) og var Hafdís Hjaltalín efst kvenna en Guðmundur Gígjar karlamegin og hlutu þau bæði 92 stig. Af þessu var hin mesta skemmtan og kvöldið ánægjulegt.

 

Jöfnunarstyrkur – áttu eftir að sækja um?

Image result for student money cartoon"Nú fer hver að verða síðastur að sækja um jöfnunarstyrkinn, en það er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu. 

Umsóknarfrestur til að sækja um fyrir vorönn 2020 er til og með 15. febrúar, n.k. 

Til þess að sækja um jöfnunarstyrkinn þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða íslykli. Ef nemandi sækir um styrkinn eftir 15. febrúar, skerðist styrkurinn um 15%. Við hvetjum alla til að að drífa sig í því að sækja um þennan styrk. Hægt er að lesa sér til um styrkinn og sækja um hann hér 

Ný önn gengin í garð

Nú er skólinn byrjaður á ný, eftir gott og langt jólafrí. Á þessari önn byrjuðu tíu nýjir nemendur og við bjóðum þá hjartanlega velkomin til okkar.

Í desember var mikil vinna í gangi í íþróttahúsinu en þar var verið að setja nýtt gólf. Á þessu gólfi eru merktir fjórir bocciavellir, fjórir badmintonvellir, þrír körfuboltavellir, þrír blakvellir, tveir hraðastigar og einn handboltavöllur. Gólfið er tvílitt, blátt og grátt og er aðalblakvöllurinn í öðrum lit. Mun bjartara er í húsinu eftir skiptin, gólfið mýkra og meiðslahætta minni.

Síðasta önn gekk mjög vel, meðalraunmæting allra nemenda var 86,2% og 18 nemendur voru með 97% raunmætingu eða betur og ávinna sér þannig frídag á vorönninni. Meðaleinkunn skólans var einnig rúmlega hálfum hærri en hefur verið undanfarin sjö ár og enginn nemandi á 1. ári féll í nokkru fagi. Við á Laugum erum ákaflega stolt af okkar nemendum og væntum þess að vorönnin verði ekki síðri en haustönnin.

Framundan er þorrablót nemenda og starfsfólks, en það verður  í byrjun febrúar

Undirbúningur Tónkvíslarinnar er hafinn, en söngkeppnin verður haldin í 15. skipti þann 22. febrúar. Söngkeppnin fer fram í íþróttahúsinu og munu nemendur frá Fl og grunnskólnum næsta nágrennis taka þátt. Hægt er að skrá sig sem keppanda hér!

 
 

 

 

Notaleg jólastund – föndur og undirskriftir

Í gær, fimmtudaginn 4. desember, bauð Freydís Anna upp á jólaföndur í matsal skólans. Það er alltaf ánægjulegt að brjóta upp skóladaginn og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. Allskonar fígúrur urðu til í höndum nemenda og starfsmanna, en sumir létu sér nægja að skreyta piparkökur.

Einnig komu nemendur saman þar sem þeir gátu skrifað undir ýmis mál, þar sem brotið er á mannréttindum fólks út um allan heim, en það kallast “Þitt nafn bjargar lífi” og er á vegum Íslandsdeildar Amnesty International.

 

Þitt nafn bjargar lífi

Þitt nafn bjargar lífi (áður Bréf til bjargar lífi). Þá skrifar fjöldi fólks nafn sitt á bréf til stjórn­valda sem brjóta mann­rétt­indi og krefst rétt­lætis fyrir þolendur. Samtímis munu hundruð þúsunda einstak­linga víða um heim gera slíkt hið sama“

Í fyrra tókum við þátt og fórum með sigur af hólmi í flokknum „flestar undirskriftir miðað við nemendafjölda“ og fengum við titilinn „Mannréttindaframhaldsskóli ársins 2018“ Að sjálfsögðu munum við taka þátt í ár en málin sem tekin eru fyrir núna eru 10 talsins og snúa öll að mannréttindabrotum gegn ungu fólki á aldrinum 14-25 ára. Mörg þeirra mjög átakanleg og erfitt fyrir okkur að setja okkur í spor þessa fólks. Hér fyrir neðan eru 3 mismunandi sögur af mannréttindabrotum á ungu fólki. 

 

Yasaman Aryani er frá Íran og hlaut 16 ára fangelsisdóm fyrir að mótmæla löggjöf um höfuðslæðu í heimalandi sínu.
Yasaman og móðir hennar gengu með hárið óhulið um lestarvagn einungis ætluðum konum og dreifðu hvítum blómum meðal farþega. Þessi viðburður náðist á myndband og fór á flug á internetinu í mars 2019 og út frá því hlaut Yasaman þennan þunga dóm!

 

Mál Söruh Mardini (24 ára) og Seán Binder (25 ára) eiga yfir höfði sér 25 ára fangelsisdóm fyrir að aðstoða flóttafólk í háska við strendur Grikklands.

Magai Matiop Ngong var aðeins 15 ára gamall og dæmdur til dauða í Suður-Súdan. Hann fékk ekki lögfræðing sér til aðstoðar, og nú í dag er hann 17 ára gamall og er á dauðadeild í Juba Central-fangelsinu, þar sem hann heldur í vonina um að áfrýjun dauðadómsins nái fram að ganga og hann geti haldið skólagöngu sinni áfram.

Hægt er að lesa um öll þessi mál sem verða tekin fyrin fyrir hér 

Í byrjun desember munum við í Framhaldsskólanum á Laugum taka þátt. Eins og í fyrra, munum við eiga notalega stund á bókasafninu. Við hvetjum bæði nemendur og starfsfólk til þess að koma upp á bókasafn, lesa sögurnar og skrifa undir. Keppnin stendur frá 25. október til 31. desember 2019.