Skólabyrjun

Image

Nú fer að líða að skólabyrjun en skólinn verður settur kl. 18:00 sunnudaginn 28. ágúst. Heimavistir opna kl. 13:00 þann dag. Við á Laugum eru orðin spennt fyrir að fá okkar gömlu nemendur aftur sem og að kynnast nýjum nemendum. Í þessari viku ættu allir nemendur að fá bréf í tölvupósti með helstu upplýsingum, t.a.m. það sem þeir þurfa að hafa með sér, þvottanúmer, herbergi og herbergisfélagi o.s.frv. Bókalisti mun koma hér inn á heimasíðuna (undir námið) fljótlega þar á eftir. Þar eru bækurnar sem notaðar eru í hverjum áfanga taldar upp undir áfangaheitinu (t.d. DANS2AT05) nema að bækur almennrar brautar eru taldar upp undir Almenn braut. Nemendur og foreldrar geta farið inn á Innu (inna.is) og skráð sig inn með rafrænum skilríkjum til að sjá hvað áfanga þeir eiga að taka núna í haust og útvega sér þá þær bækur sem eru taldar upp undir þeim áföngum á bókalistanum. Ef spurningar vakna má alltaf hringja í 464-6300 eða senda tölvupóst á si.ragual@ragual.

Hlökkum til að sjá ykkur og samstarfsins næsta vetur.

Dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Skólameistari

Nýr áfangi í íslensku slær í gegn

Image

 
 
Á degi íslenskrar tungu stóðu nemendur fyrir frábærri sýningu um Vesturferðir Íslendinga og vesturíslensku.Þetta er í annað sinn sem þessi íslenskuáfangi er kenndur við Framhaldsskólann á Laugum.Námið byggir á miklum lestri um Vesturferðirnar á 19.öld, vesturíslensku, menningu og hefðum, tvítyngisstefnu, erfðamálum ásamt mörgu öðru, því af nógu er að taka.Þjóðræknisfélag Íslendinga veitti þessum áfanga styrk, við fengum bókagjafir frá nokkrum aðilum og Úlfar Bragason kom og hélt fyrirlestur um vesturíslensku.
 
Í áfanganum eru 28 nemendur og hafa verkefnin verið sniðin að þörfum og áhuga hvers og eins.Þar má helst nefna vínartertubakstur, útgáfu Vesturblaðsins, bók um reynsluheim kvenna, „Svo fóru þær vestur – Saga kvenna til Vesturheims“ sem byggir m.a. á upplýsingum frá Vesturfarasetrinu á Hofsósi, barnabók, tímaás, vesturíslensku og erfðamál, yfirlit um fólksflutninga frá ýmsum svæðum og svo mætti lengja telja.
Myndirnar tala sínu máli, eintóm gleði og sköpun

 

Ragna íslenskukennari fékk blóm að gjöf frá nemendum fyrir frábæran áfanga og skemmtilega kennslu sem allir voru yfir sig ánægðir með. 

Smelltu á myndina til þess að sjá hana stærri

25 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum

Image

Þann 15. maí síðastliðinn voru 25 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum. Vegna samkomutakmarkana gátu bara nýstúdentar og nánustu aðstandendur þeirra verið viðstaddir athöfnina auk starfsmanna.

Við athöfnina fengu Hanna Sigrún Helgadóttir og Olga Hjaltalín Ingólfsdóttir kennarar við skólann silfurmerki hans fyrir tíu ár í starfi. Nýstúdentar fengu að venju viðurkenningar fyrir námsárangur, félagsstörf og önnur góð verk við skólann.

Hæstri meðaleinkunn á stúdentesprófi 2021, 8,08, náði Stefán Óli Hallgrímsson og er dúx Framhaldsskólans á Laugum þetta árið.

25 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum

25 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum

Brautskráning nýstúdenta fer fram á laugardaginn

Image

Laugardaginn 15. maí kl. 14:00 fer fram brautskráning nýstúdenta við Framhaldsskólann á Laugum.

Vegna samkomutakmarkana geta einungis útskriftarnemar og nánustu aðstandendur verið viðstaddir, en að öðru leiti verður brautskráningin með hefðbundnu sniði. Áhugasamir geta fylgst með streymi frá athöfninni á Facebook síðu skólans www.facebook.com/laugaskoli og hefst streymið rétt fyrir kl. 14.

Sýningar nemendafélagins á Bugsy Malone

Image

Um helgina fóru fram sýningar nemendafélagins á Bugsy Malone – Bugsy fullorðinn. Sýningarnar heppnuðust mjög vel og var aðsókn með ágætum. Húsið okkar sem við köllum “Þróttó” fékk nýlega endurbætur að innan og var aðstaða til sviðslista bætt. Hér má sjá upptöku af lokasýningu Bugsy Malone – Bugsy fullorðinn sem fór fram í gær 2. maí 2021: https://www.youtube.com/watch?v=Vrvx5ebhPGc

Brautskráning vorið 2020

Image

Guðrún Gísladóttir, dúx Framhaldsskólans á Laugum

Þann 16. maí síðastliðinn voru 16 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum. Þessi brautskráning var sérstök að því leytinu til að nýstúdentarnir fengu skírteini sín send í pósti en vegna kórónaveirufaraldursins var hefðbundinni útskriftarathöfn frestað til 29. ágúst næstkomandi. Þá vonumst við til að eldri afmælisárgangar heimsæki skólann og þá munu nýstúdentar einnig fá viðurkenningar fyrir námsárangur, félagsstörf og önnur góð verk. Hæstri meðaleinkunn á stúdentesprófi 2020, 8,04, náði Guðrún Gísladóttir og er hún því dúx Framhaldsskólans á Laugum þetta árið.

Breyttar áherslur í skólastarfi

Image

1) Minni mæting í fagtíma
Skóladagurinn samanstendur af hefðbundnum fagtímum og hóp- og námstímum þess á milli. Fagtímar eru fjölbreyttar kennslustundir á stundatöflu merktar tilteknum námsgreinum, allt frá hefðbundnum fyrirlestrum til umræðutíma og vendikennslu. Til að halda utan um námið hagnýtum við okkur námskerfin Moodle og Teams. Með breyttum kennsluháttum og tæknilausnum mæta nemendur nú í mun færri fagtíma en áður.

2) Nám á eigin forsendum
Nemendur eru með samfelldan skóladag og hver nemandi hefur sína persónulegu vinnustöð í opnu rými þar sem þeir geta unnið í námstímum, sem gefur möguleika á sveigjanlegra námsumhverfi. Í námstímum skipuleggja nemendur sjálfir, með aðstoð kennara, hvaða verkefnum þeir vinna að og geta þannig varið meiri tíma í þær námsgreinar sem þeir vilja leggja áherslu á hverju sinni.
Þetta fyrirkomulag kallar á aukna ábyrgð nemenda á námi sínu, veitir þeim sjálfstæði og reynir á hæfni þeirra til að meta styrkleika sína og veikleika. Með þessu móti geta nemendur einnig í meira mæli valið þær vinnuaðferðir sem henta þeim best. Ákveðnir námsáfangar eru í boði hverju sinni sem nemendur geta tekið á þeim hraða sem þeir ráða við. Ef þeir kjósa að hraða námi sínu krefst það meira vinnuframlags utan hefðbundins skóladags.

3) Persónuleg leiðsögn
Hóptímar eru blanda af fagtímum og námstímum. Segja má að stundatafla Laugaskóla sé fljótandi að vissu marki því hún er breytileg frá viku til viku. Hóptímar í hálfan dag eru fjórum sinnum í viku þar sem allir nemendur, auk nokkurra kennara, eru saman í einu.
Hóptímar hefjast á standandi fundi þar sem nemendur gera grein fyrir áætlunum sínum í náminu þann daginn. Að standandi fundi loknum fara sumir að vinna að verkefnum sínum meðan aðrir fara í úttekt, sem er að yfirgefa hóptíma til að sinna ákveðnum verkefnum undir stjórn kennara. Tímalengd úttekta í hóptíma er mismunandi til að nýta tíma kennara og nemenda sem best. Í hóptíma geta nemendur einnig pantað aðstoð frá ákveðnum kennara. Með þessum hætti njóta nemendur persónulegrar leiðsagnar gegnum allt framhaldsskólanámið.

4) Sveigjanleiki í námi
Almenn ánægja ríkir meðal nemenda með námsfyrirkomulagið og margir þeirra hafa nefnt sveigjanleika sem mikinn kost. Nemendur ákveða ekki aðeins hvaða námsgrein þeir vinna hverju sinni heldur geta þeir valið milli stofa til að vera í. Mismunandi vinnuaðstaða er í boði. Hægt er að vera á sínu vinnuborði, í hópvinnuherbergjum eða á bókasafninu. Sumir kjósa að vinna þar sem er algjört næði meðan öðrum hentar betur að hafa smá umgang. Stundum getur líka verið ágætt að setjast í sófa o.s.frv. Það er semsagt undir nemendunum sjálfum komið hvar þeir vinna og í hverju. Kostir þessa sveigjaleika koma ekki síst fram þegar aðstæður breytast í heiminum eins og við erum að upplifa núna því þá eru nemendur og kennarar við skólann vel í stakk búnir að aðlagast og halda sínu striki í námi og kennslu.

5) Færni til framtíðar
Framhaldsskólinn á Laugum er símatsskóli sem þýðir að nemendur taka próf, gera ritgerðir og leysa verkefni með jöfnum hætti yfir námstímann. Verkefnin sem nemendur vinna yfir önnina eru fjölbreytt. Samfelldur skóladagur, breytilegir kennsluhættir, sveigjanleiki og persónuleg nálgun er öllu ætlað styðja við þá vinnu.
Í skólanum höfum við þá hæfni og þekkingu að leiðarljósi sem nýtist í samfélagi framtíðarinnar. Nám og kennsluhættir eru í örri þróun og störf munu breytast og sum hverfa. Framtíðin kallar á fólk sem hefur færni til að vinna með öðrum, takast á við breyttar aðstæður og vera sveigjanlegt. Áherslan verður því æ meira á sí- og endurmenntun, sjálfstæði og getu til að leysa alls konar ólík verkefni og hugsa út fyrir kassann. Við erum stolt af því að kennsluhættir í Framhaldsskólanum á Laugum hafa verið þróaðir sérstaklega til að efla þessa þætti hjá nemendum.

Nýstúdentar brautskráðir

Image

Laugardaginn 18. maí voru 24 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum í frábæru veðri.

Tveir nemendur útskrifuðust af íþróttabraut, þrír af náttúruvísindabraut, átta af félagsvísindabraut og 11 af kjörsviðsbraut af jafnmörgum kjörsviðum sem voru búfræði, menntunarfræði, tónlistarflutningur, náttúrufræði, sjúkraliði, forritun, rafvirkjun, hússtjórn, kvikmyndagerð, stálsmíði og söngur. Leon Ingi Stefánsson útskrifaðist með hæstu einkunn nýstúdenta með einkunnina 8,27 og fékk bókagjöf frá Jarðböðunum við Mývatn. Leon hlaut einnig niðurfellingu skólagjalda í HR haustið 2019 fyrir árangur sinn í raungreinum.

Rúmlega 300 manns voru við athöfnina og settu fjölmennir eldri útskriftarárgangar svip sinn á samkomuna, héldu ræður og færðu skólanum gjafir. Var þar bæði um að ræða eldri gagnfræðinga sem og stúdenta. Að athöfn lokinni var kaffisamsæti í Gamla skóla.

Laugaskóli óskar öllum nýstúdentum til hamingju með áfangann og þakkar öllum sem sóttu hann heim fyrir komuna og hlýhug til skólans.

Páskaferð

Image

Nemendur Framhaldsskólans á Laugum fóru í stutta námsferð um páskanna. Sex nemendur ásamt kennara heimsóttu skóla í norður Frakklandi, Saint Joseph Notre Dame College. Þar var unnið í tvo daga á rannsóknarstofu með DNA og Brönugrasafræ. Síðan var farið í tvo daga í íþróttamiðstöð og tekist á við fjölbreytta dagskrá.

Brautskráning 2019

Image

Ágætu Þingeyingar og velunnarar skólans.

Brautskráning nýstúdenta fer fram við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugum laugardaginn 18. maí kl. 14:00.
Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin að gleðjast með okkur og þiggja kaffiveitingar að athöfn lokinni í matsal skólans.
Þennan sama dag fer aðalfundur hollvinasamtakanna Vinir Laugaskóla fram í íþróttahúsinu kl. 17:00. Velunnarar skólans eru hvattir til að mæta á þann fund.

Bogfimi á Laugum

Image

Nemendur í bogfimi nýttu góða veðrið sem var til að skjóta utanhúss. Lokatíminn var á þriðjudaginn síðasta (7. maí) þar sem nemendur kepptu sín á milli. Iðunn Klara setti fyrstu örina í keppninni í miðjuna (10 stig), keppendur fá nýtt skotmark í upphafi keppninnar og þykir frábært að setja fyrstu örina í miðjuna 🙂 

Framhaldsskólinn á Laugum er Mannréttindaframhaldsskóli ársins 2018

Image

Við í Framhaldsskólanum á Laugum tókum að venju þátt í bréfamaraþoni Amnesty International, bréf til bjargar lífi, í desember síðast liðnum.  Við fórum með sigur af hólmi í framhaldsskólakeppninni í flokknum flestar undirskriftir miðað við nemendafjölda og ber skólinn því titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins 2018.  Við erum að sjálfsögðu afar stolt af þessum titli og fögnum því að nemendur og starfsfólk láti sig mannréttindi varða og sýni það í verki.

Fyrir nokkru söfnuðust nemendur og starfsmenn saman í matsal skólans til að taka á móti viðurkenningarskjali og glæsilegum farandgrip.  Það voru þær Hera og Þórkatla frá Íslandsdeild Amnesty International sem komu færandi hendi, og færðu okkur einnig dýrindis köku í tilefni dagsins.

Það var Eyþór Kári Ingólfsson, forseti nemendafélagsins sem tók við verðlaunagripnum úr hendi Heru Sigurðardóttir.  Með á myndinni er Jóhanna Eydís bókasafnskennari sem sá að mestu um framkvæmd bréfamaraþonsins.

Samráðsfundur um norðlensk skólamál

Image

Ársfundur framhaldskólanna á Norðausturlandi, SAMNOR, var helgaður samfellu skólastiga. Til fundarins var boðið fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu, stjórnendum grunnskóla og símenntunarmiðstöðva. Inngangserindi voru haldin um efnið frá sjónarhóli grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og símenntunarmiðstöðva. Síðan var pallborð með þátttöku fyrirlesara. Fundurinn tókst mjög vel og voru þátttakendur sammála um að á þessu svæði væru einstakar aðstæður til nýbreytni í samstarfi skólastiga.

Rætt var um sveigjanleg skólaskil grunn- og framhaldsskóla, að nemendur gætu hafið nám í einstökum greinum fyrir útskrift úr grunnskóla eða lokið útskrift fyrir lok 10. bekkjar. Einnig var rætt um námsmat og hvaða upplýsingar fælust í þeim. Á mörkum háskóla og framhaldsskóla var rætt um innihald stúdentsprófsins og þann mikla sveigjanleika sem er í framhaldsskólanum til undirbúnings undir háskólanám eftir gildistöku nýrrar námskrár og velt fyrir sér hvaða kröfur það leggur á háskóla um að skilgreina þarfir um nám fyrir háskóla. Rætt var um samstarf framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva, raunfærnimat, aðlögun brotthvarfsnemenda að námi og sértækt nám í tengslum við atvinnumarkaðinn.

Rædd voru samstarfsverkefni sem þegar eru í gangi á milli skóla og skólastiga og mikill áhugi kom fram um frekari samvinnu um breytingar og þróun í samstarfi á svæðinu. Umræðan bar það með sér að hér var verið að hefja samtal sem mun áreiðanlega hafa áhrif á þróun skólamála á svæðinu.

Framhaldskólarnir í SAMNOR eru: Framhaldskólinn á Húsavík, Framhaldskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Verkmenntaskólinn á Akureyri.