Áætlanir

Jafnréttisáætlun Framhaldsskólans á Laugum

Áætlun

Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 hefur Framhaldskólinn á Laugum sett sér eftirfarandi markmið;

Kynjahlutfalli starfsfólks og nemenda skal haldið eins jöfnu og kostur er.

Laun skulu byggjast á kjarasamningum og lögum óháð  kynferði.

Lausar stöður við stofnunina skulu auglýstar svo höfði til beggja kynja.

Starfsþjálfun og endurmenntun til að auka hæfni sína í starfi og möguleika til bættra starfskjara standi öllum jafnt til boða óháð kynferði.

Samræming atvinnu- og fjölskyldulífs skal mætt með sveigjanlegum vinnutíma og eða hlutastörfum eftir því sem hægt er.  Bæði kyn eru hvött til að nýta sér rétt til töku fæðingarorlofs.

Lögð sé áhersla á tillitsemi, trúmennsku og glaðlyndi í samskiptum starfsmanna og nemenda.
Einelti og kynferðisleg áreitni er óásættanlegt.

Áætlun þessa ber að endurskoða á þriggja ára fresti.
Framkvæmd og umfang

Jafnréttisáætlun þessi nær til allrar starfsemi skólans.

Framkvæmdaáætlun jafnréttismála á að endurskoða árlega af jafnréttisfulltrúa og skólameistara og þar er lagt mat á hvort markmiðum hennar sé náð.
Ábyrgð

Skólameistari ber ábyrgð á því að jafnréttisstefnu sé framfylgt og viðhaldið. Jafnréttisfulltrúi er skipaður af skólameistara og fundar með honum um endurskoðun.

Hlutverk jafnréttisfulltrúa

Jafnréttisfulltrúi starfar í umboði skólameistara við framkvæmd jafnréttisstefnu og framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum.

Helstu verkefni jafnréttisfulltrúa eru:
a. Að tryggja framgang stefnu og framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum, fylgja eftir verkefnum og meta árangur af aðgerðum.
b. Að vinna að stefnumörkun í jafnréttismálum, undirbúa reglulega endurskoðun framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum og jafnréttisstefnunnar með hliðsjón af hlutverki og stefnu skólans ásamt ákvæðum jafnréttislaga.
c. Að veita stjórnendum og starfsmönnum upplýsingar vegna jafnréttismála.

Áætlun um viðbrögð við einelti

Einelti er neikvætt og illgirnislegt atferli sem felur í sér endurtekið áreiti og/eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt. Eineltinu er stýrt af einstaklingi eða hópi, beinist að öðrum og stendur í nokkurn tíma. Slík samskipti einkennast af ákveðnu ójafnvægi aflsmuna eða annars valds. Einelti getur birst á mismunandi hátt. Andlegt einelti felst m.a. í stríðni, útilokun, hótunum eða höfnun. Líkamlegt einelti getur verið barsmíðar, spörk, hrindingar eða meiðingar af öðru tagi.

Einelti getur einnig verið annað niðurlægjandi áreiti, til dæmis:

 • niðurlæging eða auðmýking t.d. vegna aldurs, kynferðis, kynhneigðar eða þjóðernis
 • niðurlægjandi eða lítilsvirðandi texti eða myndir í tölvupósti, sms, msn, bloggi, í gegnum facebook eða öðrum skriflegum sendingum
 • fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali
 • óþægileg stríðni eða tilraun til fyndni á kostnað annarra
 • rógi eða meiðandi sögusögnum er komið af stað
 • útilokun frá félagslegum samskiptum
 • særandi athugasemdir

Athugið að ekki er um tæmandi yfirlit að ræða.
Að þekkja einelti
Sá einstaklingur sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfum sér jafnvel um. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis. Hugsanlega er um einelti að ræða ef nemandinn:

 • lýsir andúð á skólanum
 • hættir að sinna náminu, einkunnir lækka
 • hættir að koma í matsal og/eða íþróttahús
 • er oft skráður veikur
 • vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum og einangrast félagslega
 • er mikið einn inni í herbergi
 • missir sjálfstraustið
 • virðist óhamingjusamur, niðurdreginn, þunglyndur eða í andlegu ójafnvægi
 • hefur slæma matarlyst, höfuðverk eða magapínu
 • þjáist af svefntruflunum
 • hefur þreytutilfinningu eða sýnir sljóleiki
 • neitar að segja frá hvað amar að
 • sýnir miklar skapsveiflur, verður árásargjarn og erfiður viðureignar

Verði starfsmenn eða foreldrar varir við einhver þessara einkenna eða önnur sem benda til að nemandanum líði illa er mikilvægt að kanna málið og hafa samband við stjórnendur eða námsráðgjafa.

Aðgerðaáætlun

 • Brýnt er fyrir nemendum skólans að þegar ágreiningur kemur upp þeirra á milli sé rétt að ræða málin og reyna að komast að málamiðlun og fá aðstoð til þess frá öðrum ef á þarf að halda. Þetta er kynnt fyrir nemendum með reglubundnum hætti. Til dæmis í í umsjónar- og lífsleiknitímum.
 • Nemendur sem og aðrir eru hvattir til að láta stjórnendur eða námsráðgjafa vita ef þeir eða aðrir verða fyrir einelti eða ofbeldi.  Öllum á að geta liðið vel í skólanum og njóta virðingar sem einstaklingar. Gera þarf nemendum grein fyrir því að ef þeir segja frá því að einhverjum líði illa vegna eineltis eða annars ofbeldis sé það trúnaðarmál.
 • Nemendur eru hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að bregðast við til hjálpar og láta vita. Einnig er mikilvægt að gera nemendum grein fyrir því að það að skilja útundan eða hunsa, senda samnemendum dónaleg eða særandi skeyti í sms eða gegnum tölvu og að fjalla um samnemendur sína á niðurlægjandi eða særandi hátt á internetinu er jafnmikið einelti og að hæðast að eða berja.
 • Nemendur eru fræddir um þá afstöðu skólans að einelti og ofbeldi líðst ekki. Verði nemendur uppvísir að slíku geti viðurlögum verðið beitt ef þurfa þykir.
 • Kanna skal líðan nemenda reglulega og verður það unnið í samráði við starfshóp um einelti. Ef upp kemur einelti er það í höndum starfshópsins að vinna að lausn málsins. Þrír starfsmenn skólans eiga sæti í hópnum. Námsráðgjafi, áfangastjóri og hjúkrunarfræðingur.
 • Áætlun um viðbrögð við einelti er sýnileg á heimasíðu skólans og er kynnt starfsfólki og foreldrum / forráðamönnum nýnema í skólabyrjun á haustin.

Viðbragðsáætlun

Vinnuferli ef tilkynningar berast um grun um einelti eða áreiti:

 1. Haldin er ferilskrá um málið.
 2. Málið er kannað m.a. með viðtölum við þá aðila sem eiga hlut að máli.
 3. Námsráðgjafi kallar saman starfshóp um einelti.
 4. Haft er samband við forráðamenn ólögráða nemenda (gerenda / þolenda) ef þurfa þykir.
 5. Starfshópur gerir tillögur að lausn málsins og getur annað starfsfólk, foreldrar og nemendur aðstoðað við lausn mála. Einnig getur verið þörf á utanaðkomandi aðstoð. Leggi starfshópur til að viðurlögum verði beitt, kemur það þeim áleiðis til skólameistara.
 6. Kannað verður eftir ákveðinn tíma hvort málið er leyst og eineltinu hefur linnt.  Ef svo er ekki getur þurft að leita aðstoðar aðila utan skólans við lausn málsins

Rýmingaráætlun

Samkvæmt 3. grein í reglum heimavistar og skóla er öllum íbúum heimavistar er skylt að taka þátt í brunaæfingu einu sinni á skólaári, undir leiðsögn slökkviliðsstjóra.

Unnið er eftir rýmingaráætlun sem unnin hefur verið í samstarfi við Slökkvilið Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.

Viðbrögð við eldsvoða.
Farið varlega í að opna hurðir – þreifið fyrst, ef hún er heit – ekki opna ! Ef hún er ekki heit – opnið varlega. Ef hurð er heit og þið opnið ekki, gangið út að glugga og gerið vart við ykkur.

Hringja strax í 112 – slökkviliðið.
Stjórntafla fyrir eldvarnarkerfi er staðsett í forstofu Gamla skóla. Viðvörunarkerfi lætur vita hvar eldurinn er.

Varið aðra við sem gætu verið í hættu.

Slökkvið eldinn ef mögulegt er!
Ekki fara í hetjuleik, forðið ykkur út ef þið ráðið ekki við eldinn með einu slökkvitæki eða mjög fljótlega með brunaslöngu. Reykur frá eldi er yfirleitt mjög hættulegur.

Lokið hurðum til að hindra reykútbreiðslu.
Ekki opna glugga! Súrefnið nærir eldinn.

Rýming
Þegar komið er fram á gang á heimavistum skal hafa hugfast að ef reykur er á ganginum þá skríðið undir reyknum. ATH. REYKUR ER EITRAÐUR !


Rýmingaráætlun Framhaldsskólans á Laugum – verklag

Rýmingaráætlun er í tveim hlutum. Rýming á dagvinnutíma þegar starfssemi er í fullum gangi og síðan að kvöldi eða nóttu þegar húsbóndi er eini starfsmaðurinn á svæðinu.

Rýming að degi til.

Þegar eldvarnarkerfi fer í gang að degi til skal bregðast við því með eftirfarandi hætti:

1. Kennarar fara með þá nemendur sem þeir eru að kenna, beint í íþróttahús.
2. Kokkur ásamt einum starfsmanni í eldhúsi sjá um rýmingu Tröllasteins.
3. Áfangastjóri og starfsmaður þvottahúsi sjá um rýmingu Fjalls.
4. Námsráðgjafi sjá um rýmingu Dvergasteins auk þess að sjá um rýmingu félagsaðstöðu nemenda.
5. Bókavörður sér um rýmingu efstu hæðar Gamla Skóla.
6. Fjármálastjóri sér um rýmingu annarrar hæðar Gamla Skóla.

7. Ritari sér um rýmingu á Álfasteini.

Húsvörður íþróttahúsi tekur á móti hópnum og vísar inn í íþróttasal. Nemendur fara í hópa með sínum kennara. Kennarar og annað starfsfólk/íbúar fara í sérstakan hóp.

Umsjónarkennarar gera talningu á sínum nemendum. Vanti kennara leysir skólameistari úr því.

Skólameistara skal strax tilkynnt um talningu nemenda og annarra starfsmanna og þá hvort einhvern vanti eður ei. Skólameistari tilkynnir svo slökkviliðsstjóra niðurstöðu talningar.

Rýming utan skólatíma.

Þegar eldvarnarkerfi fer í gang utan skólatíma skal bregðast við því með eftirfarandi hætti.

1. Húsbóndi fær tilkynningu frá Securitas eða verður sjálfur var við eld.
2. Húsbóndi staðfestir við Securitas hvort um eld er að ræða og Securitas sér þá um boðun á viðeigandi starfsmönnum og tilkynnir 112.
3. Húsbóndi fer þegar að því húsi sem boð koma frá og aðstoðar íbúa hússins að komast út og skulu íbúar/nemendur þegar fara í íþróttahús.
4. Starfsmenn gefa sig fram við húsvörð Íþróttahúss. Húsvörður íþrótthúss sendir sex starfsmenn til að rýma þau hús þar sem ekki er eldur. Allir mæta strax í íþróttahús.

Húsvörður íþróttahúsi tekur á móti hópnum og vísar inn í íþróttasal. Nemendur fara í hópa með sínum kennara. Kennarar og annað starfsfólk/íbúar fara í sérstakan hóp.

Kennarar gera talningu á sínum nemendum. Vanti kennara leysir skólameistari úr því.

Skólameistara skal strax tilkynnt um talningu nemenda og annarra starfsmanna og þá hvort einhvern vanti eður ei. Skólameistari tilkynnir svo slökkviliðsstjóra niðurstöðu talningar.