Aðstaðan

Öll aðstaða til náms, íþrótta og félagslífs er mjög góð í Framhaldsskólanum á Laugum. Heimavistir skólans eru góðar en á tveimur af þremur heimavistarhúsum eru baðherbergi inni á hverju herbergi sem eru rúmgóð og þægileg. Það ætti enginn að vera svikinn af aðstöðunni á Laugum!

Þá eru það sérstök forréttindi að hafa alla þá aðstöðu sem skólinn býður upp á en vera samt sem áður úti í sveit í fallegri náttúru. Óhætt er að segja að aðstaðan sé til staðan og er það að miklu leyti undir nemendum hvers vetrar komið hvernig hún er nýtt. Aðstaða til íþróttaiðkunar er frábær og nemendum að kostnaðarlausu!

 

Námsaðstaða

Frábær námsaðstaða er á Laugum en með nýju námsfyrirkomulagi, sem samanstendur af fagtímum og vinnustofum, hefur verið leitast við að skapa notalegt vinnu- og námsumhverfi. Uppröðun borða í vinnustofum er til dæmis önnur en í hefðbundnum kennslustofum þar sem myndaðir eru básar og hópvinnuborð. Reynt er að hafa mismunandi vinnuaðstöðu þannig að nemendur geti að einhverju leyti valið sér aðstöðu sem þeim hentar best. Bókahillur eru notaðar til að afmarka vinnupláss, myndir prýða veggi, blóm setja sinn svip á umhverfið og á nokkrum stöðum hefur verið komið fyrir sófum þar sem nemendur geta látið fara vel um sig, t.d. þegar þeir eru að lesa eða ræða við kennara eða skólasystkini undir fjögur augu.

Allir nemendur hafa svo sitt eigið “heimasvæði” en hefur hver nemandi hefur sitt eigið skrifborð og stól þar sem þeir hafa aðsetur. Til að byrja með voru einungis útskriftarnemar með þessi heimsvæði, en því markmiði hefur verið náð að allir njóta nú þeirra fríðinda að geta gengið að sínu svæði í vinnustofum.

Fagtímar

Fagtímar kallast þær kennslustundir sem á stundatöflu eru merktar tilteknum námsgreinum. Þær fara fram í hefðbundunum kennslustofum í Dvergasteini. Fagtímarnir urðu til með breytingunni sem gerð var á námsumhverfinu en kennslustundum hverrar námsgreinar var fækkað um helming og á móti þeim koma vinnustofur.

Heimasvæði

Í öllum rýmum í Gamla skóla er búið að koma fyrir heimasvæðum fyrir alla nemendur skólans, sem eru í dagskóla. Hver nemandi hefur þá sitt eigið skrifborð og þar með fasta vinnuaðstöðu. Í vinnustofum vinna nemendur þá á sínu heimasvæði.

Mikil ánægja er með þetta fyrirkomulag hjá þeim nemendum sem aðstöðuna nýta.

Vinnustofur

Tveir til þrír kennarar liðsinna nemendum í vinnustofum

Í vinnustofum skipuleggja nemendur sjálfir, eða með aðstoð kennara, hvaða verkum þeir vinna að og geta þannig varið meiri tíma í þær námsgreinar sem þeir vilja leggja áherslu á hverju sinni. Þetta kallar á aukið sjálfstæði og aukna ábyrgð nemenda á námi sínu, þar sem hver og einn fær persónulega leiðsögn og aðstoð við að meta styrkleika sína og veikleika. Með þessu móti geta nemendur í meira mæli notað þær vinnuaðferðir sem henta þeim best.

Tveir til þrír kennarar liðsinna nemendum í vinnustofum og geta nemendur haft sérgrein þeirra til hliðsjónar þegar þeir ákveða hvaða viðfangsefnum þeir ætla að sinna hverju sinni. Vinnustofutímana geta kennarar einnig notað til að ræða við nemendur einslega eða við hópa.

Almenn ánægja ríkir meðal nemenda með vinnustofukerfið og hafa nemendur nefnt sveigjanleika sem stóran kost. Sveigjanleikinn felst ekki eingöngu í því að nemendur ákveða sjálfir í hvaða námsgrein þeir vinna hverju sinni heldur geta þeir valið um nokkrar stofur til að vera í. Sumir kjósa að vinna þar sem er algjört næði, öðrum hentar betur að hafa smá umgang og stundum getur verið ágætt að setjast í sófa. Það er undir nemendanum sjálfum komið hvar hann vinnur og í hverju!

Vinnustofurnar í Gamla skóla eru nokkrar. Í Sal er ágætt að vinna hópavinnu og þar eru einnig tölvur sem nemendur geta notað. Við hliðina á Sal er kaffistofa nemenda en þar er kaffivél, skákborð og sófar. Þar þykir sumum gott að setjast niður með tölvu eða bók og sitja í sófum um stund. Í Bláu deild á að ríkja þögn og góður vinnufriður. Í Sigurðarstofu á þriðju hæð er eitt stórt fundarborð sem hentar einnig vel fyrir hópavinnu. Á bókasafninu eru bæði lestrarbásar og borð en þar á einnig að ríkja þögn svo góður vinnufriður skapist.

Íþróttaaðstaða

Á Laugum er íþróttaaðstaða með því betri sem gerist í framhaldsskólum á Íslandi en skólinn kappkostar að gefa nemendum kost á því að stunda fjölbreytta líkamsrækt við góðar aðstæður. Íþróttahús skólans er glæsilegt og vel tækjum búið. Auk íþróttasalar eru þar tveir líkamsræktarsalir. Sundlaugin á Laugum er tengd við íþróttahús skólans en hún var tekin í notkun árið 2005. Glæsilegur íþróttavöllur er á Laugum sem nemendur hafa greiðan aðgang að en völlurinn var endurnýjaður árið 2006.

Nemendur skólans hafa frían aðgang í íþróttahúsið, sundlaugina og ræktina sem er frábær kjarabót og því um að gera að nýta sér hina frábæru íþróttaaðstöðu eftir að kennslu lýkur.

Félagsaðstaða

Félagslífið er mikilvægur hluti af skólastarfinu ekki síst vegna staðsetningar og umhverfis skólans. Í litlum skóla eins og Framhaldsskólanum á Laugum verður félagslífið oft ólíkt því sem gerist í stærri skólum. Á Laugum koma flestir nemendur með einum eða öðrum hætti að félagslífinu. Það verður einnig fjölbreyttara þar sem nemendur búa flestir í skólanum.

Stefna skólans er að hlúa sem best að félagslífi nemenda með aðstoð og ráðgjöf kennara en félagslífið sem slíkt er að frumkvæði og undir forsjá nemenda. Þátttaka í félagslífi þjálfar og eflir samskiptahæfni nemenda og býr þá ekki síður en annað starf skólans undir að verða virkir og ábyrgir þegnar í samfélaginu.

Skólinn státar af afar góðri aðstöðu fyrir félagsstarf.

Félagsaðstaða nemenda hefur verið komið fyrir í gömlu innisundlauginni í Gamla skóla og hefur hún hlotið nafnið Laugin. Þar er FullHD hdmi skjávarpi og 7.1 heimabíókerfi, sófar og dýnur og sitthvað fleira. Nemendur á þriðja ári sem stefna á utanlandsferð reka sjoppu í gamla kvennabúningsklefanum við hlið Laugarainnar.

Þróttó er meira en kvikmyndahús. Þar er hægt að halda tónleika eða fyrirlestra og þar halda nemendur stærri fundi. Þar er aðstaða fyrir nemendur til að æfa tónlist, leiklist eða hvers konar uppákomur sem þeir vilja ráðast í.

Í íþróttahúsinu er aðstaða fyrir fjölbreytta íþróttaiðkun ásamt líkamsræktaraðstöðu að ógleymdri sundlauginni.

Nemendafélagið stendur reglulega fyrir viðburðum í skólanum og þá má nefna nokkra fasta liði í skólastarfinu eins og Tónkvíslina, árshátíð og uppskeruhátíð.

Tónkvíslin er söngkeppni Nemendafélags Framhaldsskólans á Laugum og er undankeppni skólans fyrir Söngkeppni framhaldsskólanema. Nemendum úr grunnskólum á svæðinu er boðið að taka þátt í sérstakri grunnskólakeppni á Tónkvíslinni sem hlotið hefur góðar viðtökur.

Mikið leiklistarstarf er hjá Leikdeild Ungmennafélagsins Eflingar í Rekjadal en nemendum Framhaldsskólans á Laugum hefur undanfarin ár verið gefinn kostur á að taka þátt í uppsetningum leikdeildarinnar. Veturinn 2010-2011 setti Leikdeild Eflingar upp söngleikinn Saga úr vesturbænum (West side story) og tóku fjölmargir nemendur skólans þátt í verkinu. Veturinn 2011 til 2012 var sett upp verk eftir Hörð Benónýsson og líkt og fyrr var mikil þátttaka hjá nemendum úr skólanum. Nánari upplýsingar um leikstarfsemi Leikdeildar Eflingar má finna á leikdeild.is

Meira má fræðast um starf Nemendafélagsins og félagslíf á Laugum á vefsíðunni www.nfl.is.

Húsakostur


Framhaldsskólinn á Laugum hefur yfir miklum húsakosti að ráða en skólinn er starfræktur í sjö stórum húsum sem eru samtals yfir 6.500 fermetrar!

  • Hjarta skólans er í Gamla skóla, aðal skólahúsnæðinu sem reist var árið 1924. Þar eru vinnustofur og heimasvæðinemenda, mötuneyti, bókasafn, þvottahús, félagsaðstaða nemenda, nemendaverslun, skrifstofur og vinnuaðstaða kennara. Undanfarin ár hafa verið gerðar miklar breytingar á húsinu með það að markmiði að nýta þetta gamla hús á sem bestan hátt en nýjar áherslur í námi hafa gert kröfur fyrir breytta aðstöðu.
  • Í Dvergasteini eru kennslustofur þar sem fagtímar eru kenndir. Þar er einnig heimavist, tvær kennaraíbúðir og aðstaða fyrir verklega smíðakennslu
  • Tröllasteinn er heimavist sem reist var árið 2000
  • Fjall er heimavist sem var endurnýjuð árið 2000. Þar er einnig kennaraíbúð.
  • Álfasteinn er heimavist með starfsmannaíbúð og kennslustofum.
  • Þróttó, gamla íþróttahúsið, er kvikmyndahús en salurinn var gerður upp af nemendum skólans árið 2005 og er hann notaður við margskonar tilefni, svo sem fundi, fyrirlestra eða skemmtanir.

Í herbergjum á heimavistum er þráðlaust netsamband en skólinn er með 100Mbit/s nettengingu, auk þess sem þar eru einnig baðherbergi með sturtu inni á hverju herbergi.

Á kvöldin eru húsbændur nemendum innan handar á heimavistinni. Fylgst er með umgengni á herbergjum á tveggja vikna fresti, svona til að passa upp á að menn gleymi sér ekki og láti herbergin sín verða að einhverri svínastíu!

Fjall er heimavist með 15 herbergjum á þremur hæðum. Herbergin eru tveggja manna og eru 17,7-21,3 fermetrar fyrir utan eitt sem er þriggja manna og er 35,9 fermetrar að stærð – ekki að ástæðulausu sem það herbergi er gjarnan nefnt “svítan” í daglegu tali!

Á öllum herbergjum er baðherbergi með sturtu. Parket er á gólfum og flísar á baðherbergjum.

Þráðlaust net næst í öllum herbergjum.

Sameiginleg setustofa er á miðhæðinni.

  • Í húsinu er ein kennaraíbúð.
  • Húsið var endurinnréttað veturinn 1999-2000

Álfasteinn

Í Álfasteini eru 7 tveggja manna herbergi á annarri hæð. Herbergin eru tveggja manna og eru 14,7-18,1 fermetrar. Á öllum herbergjum er baðherbergi með sturtu.

Þráðlaust net næst í öllum herbergjum.

Tröllasteinn

Tröllasteinn er heimavist með 35 herbergjum sem öll eru tveggja manna, 20,6 fermetrar að stærð.

Á öllum herbergjum er baðherbergi með sturtu. Parket er á gólfum og flísar á baðherbergjum.

Tengimöguleikar fyrir sjónvarp eru á hverju herbergi auk þess sem þráðlaust net næst í öllum herbergjum.

Smellið hér til að lesa reglur skólans.