Þorrablót og félagsvist

Gestir á þorrablótinu að syngja

Nemendafélag Framhaldsskólans á Laugum í samvinnu við mötuneyti skólans hélt veglegt þorrablót í gærkvöldi þar sem nemendur, kennarar og starfsfólk mættu prúðbúin í nýuppgerðan malsal að blóta þorra. Borðhald hófst kl. 18.00 þar sem formaður skemmtinefndar, Hákon Breki Harðarson bauð alla velkomna. Samkoman hófst með því að sungin voru lög áður en gengið var að trogum með niðursneiddum þorramat af bestu gerð. Að loknu borðhaldi voru skemmtiatriði í boði nemenda; myndband þar sem nemendur slógu á létta strengi og gerðu óspart grín. Einnig voru leikir þar sem nemendur og starfsfólk tóku virkan þátt og hlutu mikið lof fyrir skemmtilega keppni og ekki síður var vel fylgst með keppnisskapi skólameistara sem fór á kostum.

Vinningshafa í félagsvist

 

Þessu þorrablóti lauk með að starfsmannanefndin „Gleðigjafarnir“ stóðu fyrir því að nemendur og starfsfólk spiluðu félagsvist. Um kl. 22.00 þegar félagsvist lauk voru verðlaun veitt fyrir þrjú efstu sætin meðal karla og kvenna.  Þriðja sætið kom í hlut Þórunnar Sigtryggsdóttur og Arnars Freys Ólafssonar. Annað sætið hlutu Klara Rún Birgisdóttir og Ólafur Ingi Kárason. Sigurvegarar voru þau Ragna Heiðbjört Þórisdóttir og Eyþór Kári Ingólfsson. Að þessu loknu fengu nemendur svo kvöldkaffi að venju.

Deila