Bréfamaraþon Amnesty International 2017

Image

Þann 7. desember síðastliðinn tóku nemendur og starfsmenn Framhaldsskólans á Laugum þátt í bréfamaraþoni Amnesty International. Málefnin voru tíu talsins að þessu sinni og skrifuðu þátttakendur okkar rúmlega 800 bréf til stuðnings ýmsum málefnum til að mótmæla mannréttindabrotum sem eiga sér stað víðs vegar um heiminn. Góður andi ríkti og fengu þátttakendur smákökur og konfekt.

Föndurkvöld 6. desember 2017

Image

Í gærkveldi var svokallað föndurkvöld sem Freydís Anna Arngrímsdóttir kennari, hafði veg og vanda af. Nemendur jafnt sem starfsmenn tóku þátt og má sjá á meðfylgjandi myndum fallega muni sem litu dagsins ljós.

Dansæfing

Image

Síðastliðinn fimmtudag breyttu nemendur og starfsmenn skólans út af hefðbundinni dagskrá og skelltu í eina dansæfingu í síðasta tíma fyrir mat. Æfðir voru nokkrir af gömlu dönsunum ásamt hópdönsum og línudansi. Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd tóku nemendur og starfsfólk vel á því og skemmtu sér ljómandi vel.

Nemendur í Jarðfræði fóru í vettvangsferð með nemendum sama áfanga í Framhaldsskólanum á Húsavík þar sem hinn margfróði Gunnar Baldursson réði för. Veður var með eindæmum gott og höfðu nemendur gagn og gaman af. Farið var upp Hólasand upp í Mývatnssveit þar sem hin ýmsu fyrirbrigði voru skoðuð, t.d. Víti, Leirhnjúkur og Dimmuborgir.

Föstudaginn 22. september bauð Háskólinn á Akureyri útskriftarefnum Framhaldsskólans á Laugum, ásamt fleiri skólum, í háskólakynningu til Akureyrar. Þar voru góðar móttökur og skemmtilegar kynningar á þeim námsbrautum sem skólin hefur uppá að bjóða. Eftir kynningarnar var farið með nemendur í göngutúr um skólann og svo gátu þau skoðað nánar þær brautir sem þeim fannst áhugaverðastar. Eftir það fengu allir pizzur og gos áður en heim var haldið. Þetta var mjög skemmtileg heimsókn og fróðlegt fyrir nemendur að hlusta á háskólanemana lýsa því hvernig nám væri í boði og hvers vegna það nám sem þau voru í varð fyrir valinu.

Image

Lífið gengur sinn vanagang við Framhaldsskólann á Laugum. Hauststillur síðustu daga hafa gefið okkur okkur fagra daga og gert okkur kleyft að njóta haustlitanna. Aspir og reynitré á svæðinu hafa breytt um lit á degi hverjum undanfarið. Nemendur eru í óða önn við sitt nám og félagslíf og er það almennt álit að skólabragurinn er með eindæmum góður. (Mynd: kip)