Dansæfing

Image

Síðastliðinn fimmtudag breyttu nemendur og starfsmenn skólans út af hefðbundinni dagskrá og skelltu í eina dansæfingu í síðasta tíma fyrir mat. Æfðir voru nokkrir af gömlu dönsunum ásamt hópdönsum og línudansi. Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd tóku nemendur og starfsfólk vel á því og skemmtu sér ljómandi vel.

Nemendur í Jarðfræði fóru í vettvangsferð með nemendum sama áfanga í Framhaldsskólanum á Húsavík þar sem hinn margfróði Gunnar Baldursson réði för. Veður var með eindæmum gott og höfðu nemendur gagn og gaman af. Farið var upp Hólasand upp í Mývatnssveit þar sem hin ýmsu fyrirbrigði voru skoðuð, t.d. Víti, Leirhnjúkur og Dimmuborgir.

Föstudaginn 22. september bauð Háskólinn á Akureyri útskriftarefnum Framhaldsskólans á Laugum, ásamt fleiri skólum, í háskólakynningu til Akureyrar. Þar voru góðar móttökur og skemmtilegar kynningar á þeim námsbrautum sem skólin hefur uppá að bjóða. Eftir kynningarnar var farið með nemendur í göngutúr um skólann og svo gátu þau skoðað nánar þær brautir sem þeim fannst áhugaverðastar. Eftir það fengu allir pizzur og gos áður en heim var haldið. Þetta var mjög skemmtileg heimsókn og fróðlegt fyrir nemendur að hlusta á háskólanemana lýsa því hvernig nám væri í boði og hvers vegna það nám sem þau voru í varð fyrir valinu.

Image

Lífið gengur sinn vanagang við Framhaldsskólann á Laugum. Hauststillur síðustu daga hafa gefið okkur okkur fagra daga og gert okkur kleyft að njóta haustlitanna. Aspir og reynitré á svæðinu hafa breytt um lit á degi hverjum undanfarið. Nemendur eru í óða önn við sitt nám og félagslíf og er það almennt álit að skólabragurinn er með eindæmum góður. (Mynd: kip)

Skólasetning 27. ágúst kl. 18:00

Framhaldsskólinn á Laugum verður settur í þrítugasta sinn kl. 18:00 sunnudaginn 27. ágúst í íþróttahúsi skólans. Að skólasetningu lokinni verður nemendum og aðstandendum þeirra boðið upp á kvöldmat í matsal skólans. Heimavistirnar opna kl. 13:00 sama dag. Við hlökkum til að sjá ykkur öll og til komandi vetrar.

34 nýstúdentar frá Framhaldsskólanum á Laugum

Þann 20. maí voru brautskráðir 34 nýstúdentar frá Framhaldsskólanum á Laugum í blíðskaparveðri, en aldrei áður hafa svona margir verið brautskráðir frá skólanum. Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson brautskráðist af félagsfræðibraut með hæstu einkunn allra eða 9,35. Bjargey Ingólfsdóttir brautskráðist af íþróttabraut með hæstu einkunn stúlkna 8,09.  Lestu áfram →

Hástökkvarar ársins

12. maí 2016 kynnti SFR niðurstöður úr könnun sinni um stofnun ársins 11. árið í röð. Að þessu sinni var Framhaldskólinn á Laugum „hástökkvari ársins 2016“ og fór upp um 65 sæti. Valið er byggt á svörum tæplega 8.000 starfsmanna hjá 142 stofnunum.  Í könnuninni eru mældir þættir á borð við ánægju og stolt, starfsanda, trúverðugleika stjórnenda, launakjör, sjálfstæði í starfi, vinnuskilyrði, sveigjanleika vinnu, ímynd stofnunar og jafnrétti. Á Laugum gáfu starfsmenn þættinum sjálfstæði í starfi hæstu einkunn en þátturinn ánægja og stolt með stofnunina var þar skammt undan. Lægsta einkunnin var fyrir þáttinn sem mælir ánægju með launakjör. Stjórnendur og starfsfólk Framhaldsskólans á Laugum eru gríðarlega ánægð með þennan árangur og munu vinna að því hörðum höndum að bæta starfsánægjuna enn frekar.

Tölvugögnum eytt við námslok

Tölvukerfi skólans notast við Office 365 frá Microsoft frá og með hausti 2014. Þegar nemandi hættir námi við skólann er aðgangi hans eytt ásamt öllum gögnum og tölvupósti.

Nemendur þurfa því að taka afrit af þeim gögnum sem þeir vilja eiga þegar önn lýkur.

Nemandi þarf ekki að eyða eða taka til á svæðinu, það gerist sjálfvirkt þegar kerfisstjóri eyðir því.